Home Fréttir Í fréttum Timburhúsabyggð að hruni komin

Timburhúsabyggð að hruni komin

359
0
Ljósmyndin er úr hinu gagnmerka safni Kristins Guðmundssonar

Hún er sláandi þessi ljósmynd sem er tekin aftan á hús við Bernhöftstorfu um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

<>

Við sjáum þarna byggingar sem eru að hruni komnar, enda kom mörgum ekki annað í hug en að réttast væri að rífa þær og önnur hrörleg timbur- og bárujárnshús hið snarasta.

Svo varð ekki, núorðið er ánægjulegt að sjá hversu gömul hús í borginni eru flest í góðu ásigkomulagi, hafa verið gerð upp á smekklegan hátt.

Í því liggur ekki smáræðis fjárfesting sem mestanpart er komin frá eigendunum sjálfum.

Þegar maður gengur til dæmis um Þingholtin, Grjótaþorp, Grettisgötu og Njálsgötu, sér maður að þetta er ekki lítið afrek.

Svo getur maður líka saknað gamalla húsa sem urðu eyðileggingu að bráð eins og til dæmis við Lindargötu.

En það tókst að bjarga stórum hluta gömlu byggðarinnar og Reykjavík er betri og fallegri fyrir vikið.

Hér á norðurhjaranum ætti byggðin ætíð að vera lágreist – annars er hætt við að borgin verið full af skuggavarpi.

Húsið á myndinni telst vera Amtmannsstígur 1. Þar hafa verið starfrækt veitingahús alla tíð síðan Bernhöftstorfan var gerð upp. Það er byggt af Stefáni Gunnlaugssyni sýslumanni sem fékk úthlutað lóð þarna 1838.

Er eitt elsta hús Reykjavíkur. Martin Smith konsúll keypti húsið 1858, en þá bar svo við að Jórunn Guðmundsdóttir, sem var fráskilin eiginkona Stefáns, vildi ekki fara úr húsinu og var gripið til þess ráðs að flytja hana þaðan í böndum.

Smith gerði endurbætur á húsinu en það komst síðar í eigu Guðmundar Björnssonar landlæknis sem lét gera þrílyfta viðbyggingu við húsið með turni.

Það var sjálfur Rögnvaldur Ólafsson sem teiknaði. Húsið stóð svo autt á árunum á árunum 1970 til 1979 en þá var það gert upp og hýsti fyrst Gallerí Langbrók og vinsælt veitingahús sem nefndist Torfan.

Ljósmyndin er úr hinu gagnmerka safni Kristins Guðmundssonar. Hann myndaði gömlu byggðina í Reykjavík árin 1975 til 1985 og er það ómetanleg heimild.

Myndir Kristins fundust á nytjamarkaðnum Góða hirðinum, þetta voru 3500 myndskyggnur sem voru afhentar Þjóðminjasafni.

Hér er svo mynd sem er tekin af bakhliðinni á Amtmannstíg 1 í dag.

Heimild: Egill Helgason/ Dv.is