Home Fréttir Í fréttum Endurgerð Hverfisgötu lýkur í nóvember

Endurgerð Hverfisgötu lýkur í nóvember

123
0
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Endurgerð Hverfisgötu fer senn að ljúka, segir í tilkynningu frá upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar. Verklok þar hafa frestast mikið og eru verslunar- og veitingafólk við Hverfisgötu orðið mjög þreytt á ástandinu og segja veltuna nú vera 40 prósent minni en á sama tíma í fyrra.

<>

Unnið er að endurgerð götunnar frá Smiðjustíg og niður fyrir Ingólfsstræti. Þar hefur verið lokað fyrir alla bílaumferð síðan í maí en gangandi vegfarendur hafa getað gengið á pöllum á framkvæmdasvæðinu.

Upphaflega var gert ráð fyrir að verklok yrðu í september en það hefur frestast nokkrum sinnum. Nú er gert ráð fyrir að verklok verði í næsta mánuði. Búið er að skipta út lögnum undir götunni, skipta um jarðveg og breyta ásýnd yfirborðs götunnar.

Hjólastígar og göngustígar fá eftir breytingarnar meira pláss á þessum kafla Hverfisgötunnar, eins og gert hefur verið ofar í götunni.

„Þetta klúður hlýtur að kalla á tafabætur“
Rekstur verslunar og þjónustu á þeim kafla Hverfisgötu sem um ræðir hefur gengið illa, að sögn rekstraraðila. Fimm veitingahús hafa lokað síðan í sumar og önnur rétt tóra.

Þannig lýsir Ásmundur Helgason, eigandi kaffihússins Gráa kattarins, ástandinu.
„Það er um 40% minni velta núna miðað við sama tíma í fyrra,“ segir Ásmundur.

Grái kötturinn er á miðju framkvæmdasvæðinu, gengt Safnahúsinu. Ásmundur segir að skýringar borgarinnar á töfunum standist ekki skoðun en týnt rör undir götunni er sagt hafa tvöfaldað framkvæmdatímann.

„Uppsafnaður taprekstur frá því í sumar eykst með hverri vikunni, með hverri vikunni sem verkið tefst,“ segir Ásmundur í færslu á Facebook-síðu sinni í vikunni.

Ásmundur segir að gatan sé lokuð fyrir bílaumferð og grindverk hamli för gangandi vegfarenda, sem ekki allir geri sér grein fyrir því að gatan er opin fyrir gangandi umferð.

„Þetta klúður hlýtur að kalla á tafabætur til handa borginni frá verktaka og ég spyr, hver fær þær bætur? Hefur borgin orðið fyrir skaða vegna tafa á verkinu?

Svarið er líklega nei, en við sem rekum lítil fyrirtæki við götuna höfum orðið fyrir miklu tjóni,“ segir Ásmundur.

Heimild: Ruv.is