Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við Sauðárkrókslínu 2 hafnar

Framkvæmdir við Sauðárkrókslínu 2 hafnar

184
0
Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Framkvæmdir eru hafnar við Sauðárkrókslínu 2. Með henni eykst orkuöryggi, og flutningsgeta raforku til Sauðárskróks tvöfaldast. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 2,2 milljarðar króna.

<>

Jarðstrengur verður lagður frá Varmahlíð að nýju tengivirki á Sauðárkróki. Línan hefur lengi verið á teikniborðinu og framkvæmdum verið frestað nokkrum sinnum.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður Byggðaráðs Skagafjarðar, segir að framkvæmdirnar fari vel af stað og verklok séu áætluð næsta haust.

„Þetta fór af stað um mánaðamótin og mér skilst á verktakanum að hann ætli að halda áfram á meðan veður leyfir og fara af stað aftur í vor“ segir Stefán.

Eina tengingin sem Sauðárkrókur hefur núna inn á flutningskerfið er 40 ára gömul loftlína frá Varmahlíð. Stefán segir að sú lína sé ótrygg og fyrirtæki á Sauðárkróki hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni undanfarin ár vegna rafmagnleysis.

Þá sé hún fulllestuð svo það sé enginn möguleiki að flytja meira rafmagn inn á Sauðárkrók. Það setji fyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar hvað varðar stækkun.

Nýja línan kemur til með að auka afhendingaröryggi og tvöfalda flutningsgetu raforku til Sauðárkróks.
Stefán segir að nýja línan hafi verið baráttumál í langan tíma og muni breyta miklu fyrir heimamenn og á margan hátt. Ánægjan með að framkvæmdir séu hafnar séu því miklar.

Sauðárkrókslína 2 verður um tuttugu og fjögurra kílómetra löng og mun liggja samsíða núverandi loftlínu hálfa leiðina að Sauðárkróki en við Sauðárkróksbraut nyrðri helming leiðarinnar.

Nýtt tengivirki verður reist í iðnaðarhverfinu á Sauðárkróki, núverandi tengivirki sem stendur nærri íbúabyggð leggst þá af. Þá verður einnig reist nýtt tengivirki í Varmahlíð.

Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 2,2 milljarðar króna.

Heimild: Ruv.is