Home Fréttir Í fréttum Kanna kosti brennslustöðvar fyrir allt landið

Kanna kosti brennslustöðvar fyrir allt landið

303
0
Amager Bakken, hátæknisorpbrennslustöð á Amager í Kaupmannahöfn í Danmörku. Mynd: Amager ressource center

Nokkrir þingmenn hafa falið auðlinda- og umhverfisráðherra að kanna möguleikann á því að reisa hátæknisorpbrennslustöð þar sem hægt væri að brenna sorp frá landinu öllu.

<>

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokks, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar.

Samkvæmt tillögunni á ráðherra að kanna hver myndi standa að byggingu stöðvarinnar, það er hvort það yrði ríkið, sveitarfélög eða aðrir, hversu stór hún þyrfti að vera og hvar hagkvæmt yrði að reisa hana.

„Mikilvægt er í upphafi að kanna samstarfsvilja allra sveitarfélaga til verkefnisins, en sveitarfélög ákveða fyrirkomulag söfnunar heimilis- og rekstrarúrgangs og meðhöndlun úrgangsins. Jafnframt þarf að kanna hvaða verð væri unnt að bjóða fyrir förgun úrgangs og hvort og hversu hátt gjald sveitarfélögin væru tilbúin til að greiða,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Fyrri umræða um tillöguna fór fram 10. október og er hún nú hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Gert er ráð fyrir að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar fyrir 1. apríl.
Vilja minnka sorp til urðunar
Markmiðið með brennslustöðinni er að minnka það magn sem fer til urðunar. Hluti sorps hér á landi er endurunninn en það sem eftir stendur er að mestu leyti urðað.

Í greinargerð segir að urðun geti valdið grunnvatnsmengun um langa framtíð og eitrað jarðveg auk þess sem mikið landrými fari undir urðunarstaði.

Nýlega hafi komið upp hugmyndir um að sigla með sorp til Svíþjóðar og fleiri landa til brennslu í hátæknisorpbrennslustöðvum.

Eina brennslustöð landsins er á Suðurnesjum
Eina brennslustöð landsins er Kalka sem sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga.

Þar er hægt að brenna 12.300 tonnum á ári. Þar er mest allt sorp frá sjúkrahúsum á landinu brennt. Í greinargerðinni segir að hægt sé að framleiða orku úr sorpinu en sú framleiðsla hefur legið niðri um árabil.

Afangsvarmaorka er nýtt að hluta til að hita upp hús og plön Kölku. ESB stefnir að því að banna urðun sorps árið 2030 og segir í greinargerðinni að sú stefna hafi verið tekin upp víða að brenna sorp frekar en að urða það.

Í greinargerðinni segir að hátæknisorpbrennslustöðvum fylgi margir kostir, meðal annars sá að sorpinu sé breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku og að þeim fylgi tiltölulega lítil loftmengun. Þá fari minna land til spillis og grunnvatn mengist síður.

Framleiða rafmagn og hita í brennslustöð á Amager
„Rannsóknir sýna að kolefnisspor frá brennslu í háþróuðum sorpbrennslustöðvum reynist minna en af sorpi sem hlaðið er upp í landfyllingum,“ segir í greinargerðinni.

Sorpbrennslustöð á Amager í Kaupmannahöfn er tekin sem dæmi. Þar er brennt sorp frá 600.000 íbúum og 46.000 fyrirtækjum árlega og unnið úr því rafmagn og hiti til 150.000 heimila.

Útveggir brennslunnar hafi verið útbúnir sem klifurveggir og af þakinu liggja skíðabrekkur.

Heimild: Ruv.is