Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í hugmyndir um að byggja allt að þriggja hæða íbúðarhúsnæði ofan á verslunarhúsnæðið á Hagamel 67 í Vesturbænum.
Í húsinu er meðal annars að finna hina þekktu Ísbúð Vesturbæjar, Fisherman fisksjoppu og eldhús og Thai Grill. Í næsta nágrenni er Melabúðin.
T.ark arkitektar sendu skipulagsfulltrúanum fyrirspurn um málið fyrir hönd lóðarhafa/eigenda. Verslunarhúsnæðið sem um ræðir er 426,5 fermetrar.
Áhugi er á því að hver íbúðarhæð yrði 320 fermetrar að stærð. Aukning byggingamagns yrði því tæpir 1.000 fermetrar og 100 fermetra sameiginlegur þakgarður að auki.
Markmið viðbyggingarinnar er sagt vera að ýta undir þéttingu byggðar í þessu rótgróna og vinsæla hverfi svo og að styrkja núverandi verslun og þjónustu í húsinu og nágrenni þess.
Enn fremur segir að lóðin sé einstaklega vel staðsett með tilliti til skóla og leikskóla og kjörið sé að byggja þarna íbúðir fyrir ungar fjölskyldur og námsmenn. Áhersla verði lögð á að byggingin falli vel að núverandi byggðamynstri götunnar og horft verði til aðliggjandi húsa.
Hagamelur 67 er verslunarhús á einni hæð með fimm verslunum, byggt árið 1972 eftir teikningum Ásmundar Ólasonar og Gunnars Hanssonar arkitekta.
„Byggingin er stílhrein módernísk verslunarbygging borin upp af berandi vegg í gegnum bygginguna endilanga í N-A-átt og súlum í útveggjum. Stórir gluggafletir einkenna útlit auk myndarlegs þakkants þar sem skilti verslananna er að finna,“ segir í kynningu.
Niðurstaða skipulagsfulltrúa er sú að ekki séu gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið og útfærsla viðbyggingarinnar verði unnin í samstarfi við embætti skipulagsfulltrúa. Bent er á að ekki er í gildi deiliskipulag.
Byggingarleyfi yrði grenndarkynnt og ef til vill yrði breyting gerð samhliða á lóðarmörkum.
Heimild: Mbl.is