Home Fréttir Í fréttum Stjórnendur virtu að vettugi kostnaðarmat verkfræðistofu

Stjórnendur virtu að vettugi kostnaðarmat verkfræðistofu

273
0
Mynd: Visir.is

Framkvæmdastjóri Ferils verkfræðistofu segir að kostnaðar­áætlun sem fyrirtækið vann fyrir Upphaf fasteignafélag vegna verkefnis á Kársnesi standist og sé í takt við framvindu verksins. Mat fyrirtækisins hafi verið virt að vettugi og farið eftir annarri kostnaðaráætlun sem samin var innan Upphafs. Sú kostnaðaráætlun hafi verið verulega vanáætluð.

<>

Í byrjun vikunnar var greint frá því að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA, það er GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia, hafi verið umtalsvert verri en gert var ráð fyrir. Um síðustu áramót var eigið fé GAMMA: Novus sagt vera 4,4 milljarðar króna en það var lækkað niður í 42 milljónir króna í vikunni.

Helsta eign GAMMA: Novus er Upphaf fasteignafélag. Í tilkynningu sem GAMMA sendi frá sér vegna hinna válegu tíðinda kom fram að verulegar eignir væru í félaginu, meðal annars 277 íbúðir í byggingu. Stórt stak í því mengi er bygging 129 íbúða við Hafnarbraut 12 á Kársnesi. Samkvæmt áætlunum átti sala að hefjast á fyrstu íbúðunum í haust en ljóst er að töf verður á því.

Í tilkynningu GAMMA kom fram að kostnaður við framkvæmdir verkefna Upphafs, þar á meðal við Hafnarbraut 12, hafi verið vanmetinn og að raunframvinda verkefna félagsins hafi verið ofmetin.

Verkfræðistofunni Ferli var falið að gera kostnaðaráætlun vegna Hafnarbrautar 12 fyrir stjórnendur Upphafs. Sú kostnaðaráætlun var þó ekki höfð til hliðsjónar þegar verkefnið var kynnt fjárfestum.

Þá kom fram í frétt Markaðarins í vikunni að til stæði að kanna greiðslur til félaga sem komu að verkefnum Upphafs, meðal annars verkfræðistofunnar, vegna vafa um hvort eðlilega hafi verið að þeim staðið.

„Við vísum því alfarið á bug að óeðlilegar greiðslur hafi borist til okkar og skiljum ekki hvaðan sú umræða kemur. Það er rétt að við gerðum kostnaðaráætlun vegna verkefnisins á Hafnarbraut.

Sú kostnaðaráætlun er raunsæ en það var ekki farið eftir henni. Stjórnendur Upphafs sömdu aðra kostnaðar­áætlun innanhúss sem hefur ráðið för og virtu okkar mat að vettugi,“ segir Ásmundur Ingvarsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar.

Máni Atlason, nýráðinn framkvæmdastjóri GAMMA, segist ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu. Nýir stjórnendur séu að rannsaka, með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga eftir því sem við á, hvað hafi farið úrskeiðis.

„Við höfum upplýst fjárfesta sjóðanna um hver staðan er og okkar vinna er að reyna að verja virði þeirra eigna sem eru í félaginu,“ segir Máni. Hann vildi ekki svara spurningu um hvort fyrri stjórnendur hefðu gerst sekir um saknæmt athæfi.

Heimild: Visir.is