Home Fréttir Í fréttum Áform um byggingu fjölbýlishúsa á Blönduósi og Hvammstanga enn á borðinu

Áform um byggingu fjölbýlishúsa á Blönduósi og Hvammstanga enn á borðinu

269
0
Fyrirhuguð nýbygging á Blönduósi

Ekkert bólar á framkvæmdum fyrirtækisins Uppbyggingar ehf. á fyrirhuguðum fjölbýlishúsum á Blönduósi og Hvammstanga.

<>

Til stóð að hefja uppbyggingu á 20 íbúða fjölbýlishúsi á fimm hæðum í báðum sveitarfélögunum síðastliðið vor. Engilbert Runólfsson, eigandi Uppbyggingar, segir að það séu mikil vonbrigði að verkefnin hafi ekki gengið hraðar fyrir sig.

 

Fyrirhuguð bygging á Hvammstanga

 

„Ástæðurnar eru einkum þær að erfiðlegra hefur gengið að fá efndir loforða um fjármögnun en við áttum von á.“

Mikill áhugi á íbúðunum
Í lok árs 2016 sendi Uppbygging fyrirspurn til Blönduósbæjar um lóð á Hnjúkabyggð 29 til að byggja 20 íbúða fjölbýlishús á fimm hæðum og var áætlað að verktími myndi standa frá vori 2017 til vors 2018.

Félagið sótti einnig um lóð að Höfðabraut 28 á Hvammstanga og kynnti hugmyndir sínar á íbúafundi á Hvammstanga 15. janúar í fyrra um byggingu á fimm hæða og 20 íbúða húsi.

Í desember á síðasta ári voru íbúðirnar auglýstar og kom þá fram að gert væri ráð fyrir að húsin færu í byggingu í apríl eða maí á þessu ári, og að byggingatími yrði 12-14 mánuðir.

Fram kom í frétt Húnahornsins í mars síðastliðnum að Blönduósingar hafi sýnt húsinu á Blönduósi mikinn áhuga, fyrirspurnir verið margar og nokkrir hafi látið taka frá íbúð fyrir sig.

Í apríl á þessu ári var svo gert samkomulag milli Húnaþings vestra og Uppbyggingar um leigu á fjórum íbúðum í fyrirhuguð fjölbýlishúsi á Hvammstanga.

Samdráttur í fasteignafjármögnun
Aðspurður um hvers vegna verið sé að draga loforð um fjármögnun á langinn segir Engilbert að skýringa sé að leita í samdrætti í fasteignafjármögnun hjá fjármálastofnunum sem allur byggingabransinn sé að finna fyrir þessa dagana.

„Við slíkan samdrátt verða „jaðarsvæðin“ verst úti og var þetta nú ekki auðvelt fyrir, segir Engilbert og bætir við að allir séu sammálla um þörfina á báðum stöðum og vonandi komist þetta í gang fyrr en síðar.

Áformin eru því enn á borðinu segir Engilbert og bendir á að búið sé að nálgast verktaka af svæðinu, t.d. rafvirkja, pípara og húsasmíðameistara til að vinna við verkin, allar teikningar séu klárar og samþykktar og Loftorka í Borgarnesi sé reiðubúin að hefja framleiðslu um leið og fjármögnun liggi fyrir.

Engir kaupsamningar verið undirritaðir
Spurður út í eftirspurn eftir íbúðunum og hvort samningar hafi verið gerðir um kaup segir Engilbert að samningar og „biðlistar“ séu nú þegar um 22 íbúðir, en ekkert sé þó selt ennþá en að hann viti að margir séu áhugasamir um íbúðirnar.

„Engir kaupsamningar hafa verið undirritaðir og engar greiðslur verið inntar af hendi til okkar frá neinum áhugasömum kaupendum,“ segir Engilbert Runólfsson eigandi Uppbyggingar ehf.

Heimild: Huni.is