Home Fréttir Í fréttum Reisa hús fyrir nýja kjötvinnslu í Borgarfirði

Reisa hús fyrir nýja kjötvinnslu í Borgarfirði

185
0
Húsið er nú í smíðum. Ljósm. Josefina Morell.

Framkvæmdir eru hafnar við byggingu nýrrar kjötvinnslu á Grímsstöðum í Reykholtsdal. Bændurnir Hörður Guðmundsson og Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir standa fyrir framkvæmdum og hafa stofnað fyrirtækið Grímsstaðakjet ehf.

<>

Þau ætla að opna kjötvinnslu í húsinu þegar framkvæmdum lýkur og öll tilskilin leyfi verða komin í hús. „Við ætlum að einblína á vinnslu á kjöti sem við framleiðum sjálf á búinu; lambakjöt og folaldakjöt, en auk þess verður hægt að vinna kjöt hér frá öðrum búum.

Þá stefnum við að opna hér löggilt matvinnslueldhús sem við getum þá leigt út til ýmissar vinnslu, svo sem sultugerðar, kremframleiðslu eða annarrar vinnslu. Nú setjum við stefnuna á að ljúka framkvæmdum eins fljótt og hægt er.

Varðandi nánari tímaramma er best að segja sem minnst enda byggist það á vottun og leyfum. Við höfum hins vegar kynnt teikningar og annað fyrir væntanlegum umsagnar- og leyfisveitendum til að standa sem réttast að þessu.

Vonandi getum við svo byrjað að vinna folaldakjöti í haust eða vetur, en stefnum á að húsið verði í það minnsta komin með öll tilskilin leyfi til matvælavinnslu eigi síðar en næsta haust,“ segir Jóhanna Sjöfn í samtali við Skessuhorn.

Húsið er byggt með þeim hætti að þremur fjörutíu feta gámum er raðað upp hlið við hlið og þak reist yfir. Húsið er því um 85 fermetrar að grunnfleti. Jóhanna Sjöfn segir þetta hagkvæman byggingarmáta. Í húsinu verður kælir og frystir, eldhús og aðstaða til móttöku á vörum til vinnslu.

Heimild: Skessuhorn.is