Home Fréttir Í fréttum 30 herbergi nýja sjúkrahótelsins ónothæf

30 herbergi nýja sjúkrahótelsins ónothæf

285
0
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV

Rúmlega þrjátíu herbergi á nýju sjúkrahóteli Landspítalans eru enn ekki komin í notkun. Galli er í gólfi á fimmtán baðherbergjum. Framkvæmdastjóri flæðissviðs Landspítalans segir það vonbrigði.

<>

Bygging nýja sjúkrahótelsins við Hringbraut hefur ekki verið án vandræða. Það átti að vera tilbúið tveimur árum áður en fyrstu gestirnir gistu þar. Landspítalinn fékk húsið afhent í byrjun árs en ekki eru öll 75 herbergin komin í notkun.

„Það hafa verið vandamál með rúmlega 30 herbergi. Hluti af þeim, öll nema 15, munu fara í notkun um mánaðamótin. Það er búið að laga það sem þurfti að laga í þeim herbergjum,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðissviðs LSH. Það er óútskýrður leki ásamt smávægilegum lagfæringum.

Óeðlilegur halli á baðherbergjum

„Þá standa eftir 15 herbergi sem eru herbergi sem voru ætluð fyrir fatlaða. Það þarf að laga þau. Það er ekki komin endanlegur tími á það hvernær það verður gert,“ segir Guðlaug Rakel jafnframt.

Í þeim er óeðlilegur vatnshalli á baðherberginu. Þar safnast vatn og flæðir út. Annaðhvort þarf að gera þröskuld, sem hentar illa í herbergi fyrir fatlaða eða rífa gólfefnin upp og flota gólfið aftur til að fá réttan halla. Ekki er búið að ákveða hvað verður gert. „Sannarlega eru þetta vonbrigði. Landspítalinn er ekki byggingaraðili en við tökum hótelið í rekstur.“

Kostnaður vegna þessa enn óljós

Félagið, Nýr Landspítali ohf. ber ábyrgð á verkefninu. Að sögn Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjórans verður lögð inn krafa til tryggingafélags vegna gallanna. Upphæðin er ekki ljós en hún hleypur á milljónum. „Hér rís meðferðarkjarni á þessari sömu lóð. Ég held að það sé mjög mikilvægt að að við drögum að því ákveðinn lærdóm um hvernig húsi er skilað.“

Nýr landspítali á í deilum við verktaka sjúkrahótelsins, vegna tafa og bóta vegna þeirra og annarra annmarka á verkinu og er málið komið til gerðardóms.

Guðlaug segir að almenn ánægja sé með sjúkrahótelið að öðru leyti. Þar sé góður andi og gott að vera. Búið er að manna í flestar stöður hótelsins.

Heimild: Ruv.is