Íslenskir aðalverktakar telja að lög um opinber innkaup hafi verið brotin þegar stjórn Sorpu samþykkti að ganga til samninga við Ístak um byggingu á gas-og jarðgerðarstöð Sorpu. Bótakrafan gæti numið tæpum 230 milljónum
Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi hefur verið talsvert í fjölmiðlum að undanförnu, greint hefur verið frá því að hún fór 637 milljónir króna fram úr áætlun.
Sá kostnaður gæti hækkað enn frekar ef Sorpu verður gert að greiða Íslenskum aðalverktökum 230 milljónir sem verktakafyrirtækið telur sig eiga inni.
Í bréfi sem lögmannsstofan Landslög sendi framkvæmdastjóra Sorpu í júní kemur fram að Íslenskir aðalverktakar telji að lög um opinber innkaup hafi verið brotin. Sorpa hafi gert Ístaki kleift að leiðrétta eða breyta tilboði sínu eftir opnun tilboða og aðlaga það útboðsgögnum.
Skorað var á Sorpu að bregðast við með því að viðurkenna bótaskyldu og bjóða ásættanlega lausn.
Það virðist ekki hafa verið gert því á stjórnarfundi Sorpu í byrjun mánaðarins var lagt fram nýtt bréf frá Landslögum. Þar kemur fram að Íslenskir aðalverktakar hafi lagt mikið undir við tilboðsgerðina og það láti nærri að kostnaður vegna vinnu starfsmanna og rágjafa nemi 48 milljónum króna.
Fyrirtækið telji að krafa félagsins geti ekki numið lægri fjárhæð en 228 milljónum eða rúmum fimm prósentum af upphaflegu tilboðsfjárhæðinni.
Sorpu var veittur frestur til 16. september til að semja um málalok áður en leitað yrði til dómstóla. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Íslenskra aðalverktaka hefur Sorpa fengi lengri tíma til svara.
Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, sagðist ekki geta tjáð sig efnislega um málið. Það væri skoðun hjá lögmönnum og yrði tekið fyrir á stjórnarfundi í lok næstu viku.
Heimild: Ruv.is