Home Fréttir Í fréttum Íslenskur verkfræðingur stýrir gerð flugvallanna á Grænlandi

Íslenskur verkfræðingur stýrir gerð flugvallanna á Grænlandi

193
0
Erlingur Jens Leifsson er verkefnastjóri Kalaallit Airports með flugvallagerðinni. Mynd: Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Flugvallagerðinni sem er að hefjast á Grænlandi verður stýrt af íslenskum verkfræðingi, sem orðinn er verkefnastjóri grænlenskra stjórnvalda yfir mestu innviðauppbyggingu í sögu þessarar næstu nágannaþjóðar Íslendinga. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

<>

Flugvallagerðin hefur með beinum hætti fléttast inn í valdatafl stórveldanna en eftir að Grænlendingar leituðu til Kínverja um að koma að verkefninu lýsti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna yfir áhyggjum.

Forsætisráðherra Danmerkur flýtti sér þá að koma með peningana sem tryggðu verkið. Bandaríkjamenn buðust líka til að borga en Trump forseti gekk ennþá lengra; vildi kaupa Grænland.

Flugbrautin í höfuðstaðnum Nuuk, sem núna tekur aðeins við smærri flugvélum fyrir stuttar brautir, fer úr 950 metrum upp í 2.200 metra, og mun þá geta þjónað stórum þotum. Grafík/Kalaalit Airports.

Núna hefur flugvallafélag grænlenskra stjórnvalda, Kalaallit Airports, falið Íslendingi að halda utan um verkefnið fyrir sína hönd, Erlingi Jens Leifssyni.

„Þetta er miklu stærra en ég hef komið nálægt áður. Þetta er spurning um tugi milljarða í íslenskum krónum í framkvæmdum og sprengingar í jarðvinnu, fyllingar upp á 6-7 milljónir rúmmetra á hverjum stað,“ segir verkefnastjórinn íslenski.

Flugvellirnir í Nuuk og Ilulissat fá báðir 2.200 metra flugbraut en auk þess verður nýr flugvöllur með 1.500 metra braut lagður í Qaqortoq. Grafík/Hafsteinn Þórðarson.

Erlingur á að baki nærri 40 ára starfsferil sem verkfræðingur, einkum hérlendis við vegagerð, virkjana- og álversframkvæmdir, og starfaði lengi hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, meðal annars við viðhald flugbrauta.

Núna er verkefnið að byggja upp þrjá flugvelli í fyrsta áfanga; í Ilulissat, Nuuk og Qaqortoq.

„Í Nuuk og í Ilulissat, það er að byrja núna, búið að semja við verktakann og hann byrjar núna í októberbyrjun.

Svo reiknum við með þriðja vellinum, sem verður þá á Suður-Grænlandi, og verður boðinn út í janúar, ef öll plön fara eftir,“ segir Eringur.

Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, ræðir við Stöð 2 um flugvallaverkefnið. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.


En hvernig leggst það í Erling að takast á við þetta risastóra verkefni?

„Þetta er mjög spennandi. Þetta er öðruvísi. Og ég horfi björtum augum fram á veg og geri ráð fyrir að þetta gangi bara upp hjá okkur.“

-Þetta verður bylting fyrir grænlenskt samfélag?

„Algjörlega. Alveg stórkostleg bylting,” svarar Erlingur Jens Leifsson, verkefnastjóri Kalaallit Airports.

Heimild: Visir.is