Það er komið á fjórða ár síðan fyrstu aðgerðir vegna myglu hófust í Háskólanum á Akureyri. Þegar ljóst var að myglan var útbreiddari en áður var talið, var ákveðið að tæma hús kennslumiðstöðvar háskólans og skrifstofubyggingu. Það var gert snemma í fyrrasumar og þýddi að finna þurfti nýja aðstöðu fyrir 25 starfsmenn skólans á meðan húsin væru tekin í gegn.
„Ættum að komast þarna inn í október“
Nú er kennsla í HA að byrja og Hólmar Svansson, framkvæmdastjóri skólans, segir viðgerð á húsunum ekki lokið. Aðspurður segir hann að það hafi ekki endilega verið markmið að ljúka þessu fyrir skólabyrjun. „Við vildum auðvitað fylgja áætlunum og þá kannski sérstaklega rekstrinum. Að þetta kæmi út réttum megin við það.“ En hann reiknar með að framkvæmdum ljúki í september og þá verið hægt að byrja að undirbúa flutninga. „Ég myndi segja að við ættum að komast þarna inn í október.“
Mikið rót og valdið nokkrum vandræðum
Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir kostnaði upp á annað hundrað milljónir króna, en Hólmar segir að farin hafi verið heldur einfaldari leið. Kostnaðurinn verði trúlega um sjötíu milljónir þegar upp er staðið. Og allt þetta rót hafi auðvitað valdið nokkrum vandræðum.
„Við þurftum að fara út í bæ og fara með fólk héðan af „campus svæðinu“ eins og við köllum það. Héðan af skólalóðinni. Og leigðum skrifstofuhúsnæði niðri í bæ fyrir hóp akademískra starfsmanna og svo stoðeiningu. Og svo hafa ýmsir starfsmenn hér upp frá verið á flakki. Ég er held ég á þriðja staðnum núna eftir að þetta kom upp innan skólans. Þannig að það verða margir að sýna sveigjanleika á meðan við búum við þessar aðstæður.“
Frekari aðgerðir fram undan í öðrum byggingum
En Hólmar segir frekari aðgerðir fram undan í húsum háskólans þótt þessum miklu framkvæmdum sé að ljúka. „Við vorum með önnur svæði sem voru athugasemdir við. En ekki eins alvarlegar, langt í frá.“
„Er þá grunur um myglu í fleiri húsum skólans?“
„Það komu vísbengingar um að það væru ákveðnir staðir sem við þyrftum að passa út af einhverjum raka sem hefði einhvers staðar sest að. Og við munum þá halda áfram að tækla það. Það eru þá miklu minni mál, tilfærslur á milli skrifstofa, laga einstaka veggi og svo framvegis. Þetta eru þessi gömlu Sólborgarhús sem er kominn víða tími á,“ segir hann.
Heimild: Ruv.is