Home Fréttir Í fréttum „Ég hrópaði bara: Guð minn góður!“

„Ég hrópaði bara: Guð minn góður!“

300
0
Dekk sprakk á flutn­inga­bíl á Sand­skeiði á Suður­lands­vegi í dag og hafnaði bíll­inn á vegriði. Ljós­mynd/​Ingvar Guðmunds­son

Bet­ur fór en á horfðist þegar flutn­inga­bíll fór út af veg­in­um við Sand­skeið á Suður­lands­vegi á öðrum tím­an­um í dag. Kar­en Dag­mar Guðmunds­dótt­ir var á aust­ur­leið þegar hún sá dekk á vöru­bíl sem ók á veg­in­um á móti henni „hvell­springa“ og stefna beint á bíl henn­ar. Eins árs gam­all son­ur Kar­en­ar var með í för.

<>

„Ég þakka Guði fyr­ir þetta vegrið, því ég ef­ast um að ég og son­ur minn vær­um til frá­sagn­ar núna ef ekki hefði verið fyr­ir það,“ seg­ir Kar­en í sam­tali við mbl.is.

Vöru­bíll­inn hafnaði á vegriði á veg­in­um og stöðvaðist. „Bíll­inn kem­ur askvaðandi á móti okk­ur og lend­ir á vegriðinu og sem bet­ur fer hélt það. Ég beið all­an tím­ann eft­ir að hann myndi fara á hliðina. „Ég hrópaði bara: Guð minn góður!“,“ seg­ir Kar­en.

Vegriðið hélt flutn­inga­bíln­um eft­ir að hann hafnaði á því. Bíll­inn hefði ann­ars að öll­um lík­ind­um endað á veg­ar­helm­ingi þar sem bíl­ar komu úr gagn­stæðri átt. Ljós­mynd/​Ingvar Guðmunds­son

Lyk­il­atriði að vegriðið hélt flutn­inga­bíln­um
Hún brást við með því að keyra út í kant og hringja í neyðarlín­una. „Svo hljóp ég og at­hugaði hvort það væri ekki í lagi með bíl­stjór­ann.“ Svo reynd­ist vera og allt fór því vel að lok­um. Lög­regl­an kom á vett­vang skömmu síðar en þá var Kar­en lögð af stað aft­ur en ferðinni var heitið heim í Hvera­gerði. „Við kom­umst áfalla­laust heim.“

Lít­il um­ferð var á veg­in­um þegar slysið átti sér stað og Kar­en seg­ir að eng­inn bíll hafi verið við hliðina á vöru­bíln­um og að langt hafi verið í næsta bíl fyr­ir aft­an. Þá seg­ir hún mestu máli skipta að vegriðið hafi haldið.

„Þetta var full­lestaður vöru­bíll og hefði því getað endað mjög illa,“ seg­ir Kar­en, en 200 til 300 metr­um vest­ar en slysið átti sér stað end­ar vegriðið.

Skipt­ar skoðanir eru um svo­kölluð víra­vegrið og hafa bif­hjóla­menn til að mynda haldið því fram að víra­vegrið séu stór­hættu­leg bif­hjóla­mönn­um.

 

„Ég var ein af þeim sem var á móti þessu en ég er það ekki í dag. Ég hugsaði ein­mitt þegar ég hélt áfram aust­ur þar sem vegriðið ligg­ur niðri: „Guði sé lof að þetta skeði ekki hér.“.“

 

Litlu mátti muna að flutn­inga­bíll­inn hafnaði á fólks­bíl sem kom úr gagn­stæðri átt. Ljós­mynd/​Ingvar Guðmunds­son

 

Heimild: Mbl.is