Home Fréttir Í fréttum Aka á keilur þegar þeir sjá konur helluleggja

Aka á keilur þegar þeir sjá konur helluleggja

525
0
Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV

Ferðamenn á leið um Borgarnes hafa rekið upp stór augu og legið hefur við umferðaróhöppum þegar þeir sjá ungar konur við hellulögn. Þær furða sig á athyglinni.

<>

Hjá garðaþjónustunni Sigur-Görðum í Borgarfirði starfa nokkrar ungar konur við hellulögn og hafa gert undanfarin ár.

Mikil umferð ferðamanna er um bæinn og þær hafa fundið fyrir athyglinni bæði frá erlendum og íslenskum ferðalöngum.

„Það er kannski merkilegt á einhvern hátt, ég veit það ekki,“ segir Klara Ósk Kristinsdóttir starfsmaður Sigur-Garða. „Við erum búnar að vera að leggja hellur í sumar og ferðamennirnir, já, þeir fara niður í 15 [kílómetra hraða] skulum við segja, og síminn fer á loft og myndband er tekið.“

„Ég veit ekki með það“
„Sumir hafa nú líka bara gefið sig á tal; Koma og hrósa okkur og segja að þeir séu nú ekki vanir því að sjá konur við þessi verk í sínum heimalöndum og svoleiðis,“ segir Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir.

„En okkur finnst þetta náttúrlega bara mjög eðlilegt.“
„Það var einn með þá staðreynd að það væri engin kona í Asíu sem kynni að leggja hellur,“ bætir Klara Ósk við.

„Ég veit ekki með það.“
Þær segja að Borgnesingar kippi sér ekki mikið upp við að konur vinni störf sem áður hétu karlastörf.

„Það er mjög gaman og gott að fá stuðninginn,“ segir Ester Alda. „Við erum búin að fá mjög mikið hrós frá bæjarbúum sem er mjög skemmtilegt og hvetjandi við vinnuna. Það er allt mjög jákvætt.“

Spurðar hvort þær haldi að strákar sem vinna sömu vinnu fái jafn mikið hrós og stuðning segjast þær ekki vita neitt um það. „Ekkert endilega. Við erum mikið að vinna bara saman við stelpurnar,“ segir Ester Alda og bendir á að karlkyns starfsmenn fyrirtækisins sinni öðrum verkefnum.

Íslendingar taka líka myndir af þeim
„Íslendingar eru ekkert minna að taka myndir. Þeir hægja alveg líka á sér,“ segir Klara Ósk. Hún segir að bílstjórar hafi jafnvel misst einbeitinguna við aksturinn af því að þeir voru að fylgjast með þeim leggja hellur.

„Það voru nokkrir keiluárekstrar þegar við vorum á Borgarbrautinni. Það voru nokkrar keilur keyrðar niður. Þannig að það er eitthvað smá,“ segir hún og þær hlæja.
Og þær eru ekki í neinum vafa um hver sé galdurinn við góða hellulögn.

„Mjög mikil nákvæmni,“ segir Inga Rósa Jónsdóttir. „Það er bara að þjappa og strauja þetta vel.“

Heimild: Ruv.is