Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við hús íslenskunnar að hefjast

Framkvæmdir við hús íslenskunnar að hefjast

202
0
Mynd: Haukur Holm - RÚV

Vinna er hafin í svokallaðri holu íslenskra fræða við Suðurgötu í Reykjavík. Holan hefur staðið opin í sex ár. Framkvæmdir við Hús íslenskunnar hefjast í ágúst.

<>

Alþingi ákvað árið 2005 að leggja fé til byggingar hússins. Þremur árum síðar, í ágúst 2008 lá fyrir niðurstaða í hönnunarsamkeppni og til stóð að hefja framkvæmdir.

En tveimur mánuðum síðar varð Hrun og öllum byggingaráformum var slegið á frest.
Árið 2013 tók svo Katrín Jakobsdóttir, sem þá var mennta- og menningarmálaráðherra, fyrstu skóflustungu hér á lóðinni og þá hófst vinna við að grafa þessa holu sem hefur staðið opin síðan.

Hún hefur í daglegu tali fengið nafnið Hola íslenskra fræða.
Holan hefur þyrnir í augum margra borgarbúa og efni í háðsglósur. En hún hefur þó verið notuð til jarðfræðirannsókna og er ágætis vitnisburður um hvernig plöntur og gróður tekur yfir ónumin svæði, ef maðurinn lætur þau í friði.

Og nú er verktakinn farinn að undirbúa bygginguna á ný. „Já, nú fer hola að vera hús. loksins er komið að því,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins.

„Það liggur fyrir að Ístak er að fara af stað og þeir eru að byggja upp aðstöðu fyrir sína starfsmenn og formlega munu framkvæmdir hefjast hér um miðjan ágúst.“

Er þetta ekki með stærri framkvæmdum sem framkvændasýsla ríkisins stendur fyrir? „Jú þetta er með stærri framkvæmdum. Þetta er með stærstu framkvæmdum og ekki síður hér á höfuðborgarsvæðinu, svo það munar um minna,“ svarar Guðrún.

Í húsinu verða sérhönnuð rými fyrir skinnhandritin sem eru í umsjón Stofnunar Árna Magnússonar. Þar verður hægt að rannsaka og sýna handritin. Og þarna verður einnig aðstaða fyrir kennara og fræðimenn, lesrými, fyrirlestrar- og kennslusalir, bókasafn og kaffihús.

Kostnaðaráætlun fyrir húsið hljóðar upp á 6,2 milljarða króna. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdina að stærstum hluta og Háskóli Íslands leggur til 30 prósent.

Heimild: Ruv.is