Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdum við gervigrarsvöll lokið

Framkvæmdum við gervigrarsvöll lokið

163
0
Mynd: Mosfellingur.is

Í ár spila bæði meistaraflokkur kvenna og karla Aftureldingar í Inkasso-deildinni í knattspyrnu og því reyndist nauðsynlegt að hefja endurbætur á aðstöðu fyrir áhorfendur við gervigrasvöllinn að Varmá.

<>

Allir heimaleikir fara fram á þeim velli á yfirstandandi leiktímabili samkvæmt ósk knattspyrnudeildarinnar

Alfarið hefur verið unnið eftir þeim kröfum sem KSÍ setur í þessum efnum og gott samstarf hefur verið milli Mosfellsbæjar, Aftureldingar og KSÍ um þær breytingar sem farið var í enda þurfti að bregðast skjótt við.

Helstu framkvæmdir

– Útbúin hefur verið 300 sæta stúka á 6 pöllum við gervigrasvöllinn. Heildarlengd stúkunnar er 34 metrar og var hluti sætanna fluttur af Varmárvelli í hina nýju stúku.

– Núverandi varamannaskýli voru stækkuð með því að framlengja þau og bæta þannig við 4 sætum þannig að þau rúmi 14 manns eins og kröfur gera ráð fyrir.

– Nauðsynlegt reyndist einnig að stækka öryggissvæðið við völlinn, það þarf að vera 4 metrar en var eingöngu 2 metrar. Þeirri framkvæmd er nú lokið og er viðbótin lögð í sambærilegu efni sem er gervigras án innfyllingar.

– Þá var komið upp salernisaðstöðu fyrir áhorfendur sem búa við fötlun og var það leyst með leigu á fyrsta flokks salernisgámi meðan unnið er að framtíðarlausn.

– Í vor hefur einnig verið unnið að endurnýjun og stækkun búningsklefa í kjallara sundlaugarinnar sem breytir aðstöðu knattspyrnunnar til batnaðar.
Fjölnota knatthús í notkun í haust

„Afturelding hefur náð frábærum árangri í knattspyrnu á síðustu árum og Mosfellsbær leggur áherslu á að styðja vel við íþróttastarf og erum við auðvitað stolt af okkar afreksfólki.
Samstarf bæjarins og Aftureldingar er gott og það að komast í Inkasso-deildina kallaði á bætta aðstöðu. Þeim aðgerðum er nú lokið og það var einkar ánægjulegt að sjá nýju stúkuna fulla af áhorfendum á fyrsta heimaleiknum hjá körlunum.

Ég treysti því að Mosfellingar muni fjölmenna á leikina í sumar hjá bæði konunum og körlunum. Síðan verður fjölnota knatthúsið tekið í notkun í haust þannig að það er mikið að gerast í aðstöðumálum að Varmá um þessar mundir,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Heimild: Mosfellingur.is