Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar við Hólsvirkjun

Framkvæmdir hafnar við Hólsvirkjun

492
0
Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV

Framkvæmdir eru hafnar við Hólsvirkjun í Fnjóskadal og er vonast að til að virkjunin verði gangsett eftir tæpt ár. Fjárfestingin hleypur á tveimur milljörðum króna.

<>

Allir bæir í Fnjóskadal verða brátt tengdir þriggja fasa rafmagni.

Arctic Hydro hyggst reisa 5,5 megavatta virkjun nyrst í Fnjóskadal. Gerð verður 150 metra breið og átta metra há stífla í Hólsá, og stórt lón, og önnur minni í Gönguskarðsá.

Vatnið verður leitt í þrýstipípu að nýju stöðvarhúsi á bakka Fnjóskár.

Undirbúningur síðan 2011
Undirbúningur verkefnisins hefur ekki gengið þrautalaust og raunar tekið ein átta ár, enda þurfti að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, breyta skipulagi svæðisins og afla tilskilinna leyfa.

Þetta er nú allt í höfn og því verður mikið um að vera hér næstu mánuði.

Vinnubúðir eru komnar upp og er hafin vegagerð og pípulögn. „Við erum að fara að leggja hérna 6.000 metra af þessum glertrefjarörum sem þið sjáið hérna og við erum að fara að leggja 5.500 metra af vegum,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro.

Ekki fjárfesting fyrir spretthlaupara
Stífluframkvæmdir hefjist svo síðar í sumar. Kostnaður við þessa virkjun, sem á að gangsetja næsta vor, er um tveir milljarðar. „Þannig að þetta er með stærri innviðafjárfestingum hér á svæðinu,“ segir Skírnir.

Og eru menn vissir um að þetta muni borga sig? „Við erum sannfærðir, en þetta er ekki fyrir spretthlaupara, þetta er fyrir langhlaupara.“

Færðu pípur til að sneiða hjá fornleifum
Í umhverfismati kom fram að fjöldi fornminja væri á svæðinu. Skírnir segir að framkvæmdir taki mið af því og pípur færðar til eins og hægt er. „En við skulum alveg hafa það á hreinu að mikið af þessum fornleifum eru kolagrafir og þær skipta þúsundum hérna,“ segir Skírnir.

Þrífösun rafmagns í Fnjóskadal í leiðinni
Hins vegar sé nauðsynlegt að bæta úr raforkuskorti á Norðurlandi og virkjun af þessari stærð hafi mikið að segja. Hún tengist dreifikerfi Rarik og er hafin lögn á jarðstreng milli stöðvarhússins og Rangárvalla á Akureyri, um 30 kílómetra leið.

Fyrir fáeinum dögum var strengurinn plægður í Fnjóská sem var drjúgt verkefni.
Íbúar í Fnjóskadal njóta góðs af þessari framkvæmd töluvert áður en virkjunin verður gangsett.

„Rarik mun í leiðinni leggja 11 kílóvolta streng og þrífasavæða Fnjóskadal sem Fnjóskdælingar hafa beðið lengi lengi eftir og veitir ekki af fyrir kúabú og frekari uppbyggingu á svæðinu,“ segir Skírnir.

Heimild: Ruv.is