Home Fréttir Í fréttum Ístak bauð lægst í hús Íslenskunnar

Ístak bauð lægst í hús Íslenskunnar

523
0

Nýtt hús háskólans utan um handritin, þar sem holan er nú við Þjóðarbókhlöðuna, kostar 6 milljarða.

<>

engið verður að tilboði lægstbjóðanda í byggingu Húss íslenskunnar sem rísa mun við Arngrímsgötu í Reykjavík. Í kjölfar útboðs vegna framkvæmdanna var gerð heildarkostnaðaráætlun fyrir verkefnið en hún nemur um 6,2 milljörðum króna. Ríkissjóður mun fjármagna um 70% af heildarkostnaði og Háskóli Íslands um 30% með sjálfsaflafé.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur annaðist útboðsmál vegna byggingarinnar en tilboð í framkvæmdir voru opnuð í febrúar sl. Þrjú tilboð bárust í framkvæmdina og mat Framkvæmdasýslan þau öll gild. ÍSTAK átti lægsta tilboðið í verkið. Tryggt verður að fjármagn til verkefnisins rúmist innan fjármálaáætlunar.

Mun geyma merkustu gersemar þjóðarinnar

„Það er fagnaðarefni að framkvæmdir við Hús íslenskunnar séu að hefjast. Þetta er löngu tímabært að verðugt hús sé reist til að varðveita handritin okkar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

„Þau eru einar merkustu gersemar þjóðarinnar og geyma sagnaarf sem ekki aðeins er dýrmætur fyrir okkur heldur hluti af bókmenntasögu heimsins. Nú er heppilegur tími fyrir opinberar framkvæmdir í ljósi þess að hagkerfið er að kólna.“

Þingsályktunartillaga um eflingu íslenskunnar sem opinbers máls liggur nú fyrir á Alþingi en liður í henni er hvati um vitundarvakningu um mikilvægi tungumálsins, sögu þess og sérstöðu.

„Íslensk tunga er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar, við viljum sýna henni og menningararfinum sóma. Hús íslenskunnar mun þjóna fjölbreyttum tilgangi og verður um leið mjög táknræn bygging fyrir mikilvægi tungumálsins fyrir okkur öll,“ segir Lilja jafnframt.

Handritin eru í umsjón Stofnunar Árna Magnússonar sem hafa mun aðstöðu í húsinu ásamt Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í byggingunni verða sérhönnuð rými fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á skinnhandritum auk vinnustofa fyrir kennara og fræðimenn, lesrými, fyrirlestra- og kennslusalir, bókasafn og kaffihús. Húsið verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta þess, heildarflatarmál þess er tæpir 6.500 fermetrar.

Katrín tók skóflustunguna sem menntamálaráðherra

Verkefni þetta hefur átt sér nokkurn aðdraganda en ákvörðun um framlag til byggingar hússins var tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt í ágúst árið 2008.

Árið 2013 tók þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og nú forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir fyrstu skóflustunguna á lóðinni við Arngrímsgötu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu vegna verkefnisins. Á árunum 2016-2018 fór síðan fram ítarleg endurskoðun og rýni á hönnun hússins með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í byggingu og rekstri.

Næstu skref verða samningsgerð við lægstbjóðanda um framkvæmd verksins. Ráðgert er að verklegar framkvæmdir muni taka um þrjú ár.

Heimild: Vb.is