Home Fréttir Í fréttum Nýr vegur yfir Tjarnará á Vatnsnesi tilbúinn í haust

Nýr vegur yfir Tjarnará á Vatnsnesi tilbúinn í haust

257
0
Myndir: Vegagerðin

Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar frá Hvammstanga hefur í vetur unnið að smíði 62 metra langs stokks fyrir Tjarnará á Vatnsnesvegi (711).

<>

Vel gengur að smíða stokk þrátt fyrir válynd veður

Í stokkinn fara um 300 rúmmetrar af steypu.

Umferð um Vatnsnesveg hefur aukist mikið síðustu ár enda er hinn 100 kílómetra langi Vatnsneshringur vinsæll meðal ferðamanna. Á Vatnsnesinu er að finna fjölmargar náttúruperlur og sögufræga staði.

Hvítserkur dregur fólk að en einnig má nefna Hamarsrétt, Illugastaði, Tjörn og Borgarvirki. Á Vatnsnesi er mikið um sel og auðvelt fyrir ferðamenn að skoða seli að Ósum.

Gamla brúin var orðin úr sér gengin.

Vegna aukinnar umferðar þótti nauðsynlegt að gera úrbætur á veginum, sér í lagi á kaflanum við Tjarnará. „Gamla brúin yfir Tjarnará hefur lengi verið ónýt og gilið að henni mjög hættulegt, framkvæmdin er því afar nauðsynleg,“ segir Sigurður Hallur Sigurðsson brúarsmiður sem hefur unnið að smíðinni frá því framkvæmdin hófst þann 3. desember síðastliðinn.

Teikning af nýja veginum og ræsinu.

Upphaflega var verkið boðið út. Aðeins eitt tilboð barst sem þótti mjög hátt. Því var hafnað og Vegagerðin ákvað að láta brúavinnuflokk Vegagerðarinnar á Hvammstanga sjá um að byggja ræsið.

Verkið hljóðar upp á 105 milljónir króna sem er um 20 milljónum lægra en upphaflegt tilboð verktaka.

Aðstæður voru oft erfiðar.

„Þetta er steyptur stokkur sem er um sjö metrar í þvermál og 62 metra langur. Í hann fara um 300 rúmmetrar af steypu og þrjátíu til fjörutíu tonn af kambstáli,“ lýsir Sigurður Hallur en verkið hefur gengið mjög vel þrátt fyrir rysjótt veðurfar. „Það hefur í það minnsta enginn dagur dottið út vegna veðurs.

Mótin undir stokkinn fylltust af íshröngli.

Hins vegar fengum við yfir okkur gríðarlegar klakasprengjur sem settu gilið hálft á kaf. Kraninn okkar fór þannig hálfur á kaf og við urðum fyrir dálitlu tjóni, en fjórir vinnudagar fóru þar í súginn. En það gengur á ýmsu í svona brúarsmíði og við erum öllu vanir.“

Hinn nýi vegkafli.

Ætlunin er að síðasta steypuvinnan við stokkinn fari fram þann 6. júní og telur Sigurður Hallur allar líkur á að það standist. „Við verðum því farnir héðan upp úr miðjum júní.“
Við tekur uppbygging vegarins en um hana sér Norðurtak. Verkið hefst 1. júlí og áætlað er að því ljúki 1. október 2019.

Heimild: Vegagerðin.is