Home Fréttir Í fréttum Furðar sig á kæru sóknarnefndar Dómkirkjunnar

Furðar sig á kæru sóknarnefndar Dómkirkjunnar

178
0
Skjáskot af Rúv.is

Framkvæmdastjóri hótelbyggjandans Lindarvatns furðar sig á kæru sóknarnefndar Dómkirkjunnar gegn Reykjavíkurborg og Lindarvatni vegna Víkurgarðs.

<>

Öll leyfi fyrir framkvæmdinni liggi fyrir. Þá styttist í að Lindarvatn leggi fram háa bótakrafa á hendur Minjastofnun.

Sóknarnefnd Dómkirkjunnar hefur lagt fram kæru til ríkissaksóknara á hendur Reykjavíkurborg og Lindarvatni ehf. sem byggir hótel á Landsímareitnum.

Dómnefndin telur að gamli kirkjugarðurinn Víkurgarður nái lengra til austurs en Reykjavíkurborg telur.

Í kærunni segir að kjallari fyrirhugaðs hótels verði í austurhluta kirkjugarðsins. Þá segir að röskun grafarhelgi varði refsingu og þó kirkjugarðurinn hafi verið lagður niður breyti það engu um friðhelgi hans. Þá segir að sá sem raskar grafarhelgi eigi yfir höfði sér sektir eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

„Í fyrsta kastið þá kemur þetta svolítið á óvart vegna þess að staðreyndin er sú að það eru öll leyfi til staðar. Borgarlögmaður hefur tekið þetta til ítarlegrar skoðunar,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.

Jóhannes segir að frá því kirkjugarðurinn var afhelgaður fyrir nærri tveimur öldum hafi mikið verið framkvæmt á svæðinu. Fyrir rúmum mánuði sendi dómsmálaráðuneytið Reykjavíkurborg og Lindarvatni ehf. bréf þar sem bent er á að ekki megi gera jarðrask í niðurlögðum kirkjugarði né reisa mannvirki. Þó geti dómsmálaráðuneytið veitt undanþágu. Beiðni um slíkt hafi ekki borist ráðuneytinu.

Jóhannes segir að lög um niðurlagða kirkjugarða nái ekki yfir Víkurgarð.
„Vegna þess að kirkjugarðurinn er lagður niður áður en lögin eru sett og efnislegu skilyrðin eru heldur ekki uppfyllt. Þannig að þetta er rangt mat og við erum ósammála þessu,“ segir Jóhannes.

Hann segir að framkvæmdir haldi áfram. Núna sé unnið að því að steypa botnplötu.
Kæra sóknarnefndar er dagsett 12. apríl. Ríkissaksóknari metur hvort tilefni sé til rannsóknar lögreglu.

Ef ekki, verður kærunni vísað frá. Þess má vænta að niðurstaða liggi fyrir innan mánaðar. Jóhannes segir að sú ákvörðun Minjastofnunar að skyndifriða hluta framkvæmdasvæðisins hafi tafið framkvæmdir.

„Líklega hefur það tafið afhendingu um sex vikur,“ segir Jóhannes.
Lindarvatn undirbýr nú skaðabótakröfu á hendur Minjastofnun.
„Og það styttist í að við sendum Minjastofnun þessa kröfu, þessa skaðabótakröfu,“ segir Jóhannes.

Hleypur það á milljónum eða tugum milljóna?
„Meira. Það er kannski óábyrgt að tjá mig um fjárhæðir núna en þetta er há krafa enda er tjónið mikið í svona umfangsmiklum framkvæmdum,“ segir Jóhannes.
Með því að afhending tefjist tapist rekstrartekjur. Þá valdi þetta auknum kostnaði vegna aukinnar vinnu hönnuða og verktaka.

Heimild: Ruv.is