Home Fréttir Í fréttum Rautt áhættustig vegna kostnaðaráætlana

Rautt áhættustig vegna kostnaðaráætlana

524
0
Skjáskot af Rúv.is

Gerð kostnaðaráætlana við þrjú af fjórum verkefnum Reykjavíkurborgar sem tekin eru fyrir í skýrslu innri endurskoðunar var ekki í samræmi við reglur.

<>

Þar vantaði eina kostnaðaráætlun af þremur sem ber að gera áður en ráðist er í framkvæmdir.

Innri endurskoðun birtir í skýrslu sinni ellefu ábendingar um atriði sem betur mega fara. Ein er á rauðu áhættustigi, sem svo kallast.

Það þýðir að bregðast verður tafarlaust við og að mikil hætta er á fjárhagslegu tjóni, orðspors- og sviksemisáhættu.

Verkefnin sem um er fjallað í skýrslu innri endurskoðunar eru Mathöll á Hlemmi, viðbygging við Sundhöll Reykjavíkur, viðbygging við Vesturbæjarskóla og hjólreiðastígur á Grensásvegi. Hjólreiðastígurinn er eina framkvæmdin sem kláraðist innan vikmarka frá kostnaðaráætlunum og fjárheimildum.

Hin eru endurbyggingar- eða viðbyggingarverkefni þar sem meiri óvissa ríkir í gerð kostnaðaráætlana.

Gera á frumkostnaðaráætlun, kostnaðaráætlun I og kostnaðaráætlun II áður en ráðist er í verkefni.

Þetta var aðeins gert í tilviki viðbyggingarinnar við Vesturbæjarskóla. Við undirbúning viðbyggingar við Sundhöll Reykjavíkur, endurbyggingar Hlemms sem mathallar og gerð hjólastígs á Grensásvegi vantaði kostnaðaráætlun I.

„Það gefur til kynna að ekki sé nægur tími gefinn til undirbúnings framkvæmda og eykur áhættuna á því að hönnun sé ófullnægjandi og ekki nægilega vel rýnd,“ segir innri endurskoðun.

Innri endurskoðun segir í skýrslu sinni að dæmi séu um að betur megi standa að kostnaðaráætlun. Verkefnin fjögur fóru samtals 403.6 milljónir króna fram úr fjárheimildum.

Þar af eru 368 milljónir vegna aukaverka á útboðsverkum. Það er 91 prósent framúrkeyrslunnar í heild sinni.

Getur skaðað orðspor og valdið fjárhagslegu tjóni
Alvarlegasta ábending innri endurskoðunar er vegna gerðar kostnaðaráætlana. Það er eina ábendingin á rauðu áhættustigi.

Rauð ábending þýðir að veikleiki sem bent er á geti leitt af sér áhættu á einu eða fleiri af eftirfarandi: miklu fjárhagslegu tjóni, brotum á lögum eða að öðrum kröfum ytri aðila sé ekki fylgt, vöntun eða brotum á siðareglum og/eða alvarlegt brot á innri reglum, mikilli orðsporsáhættu og mikilli sviksemisáhættu.

Innri endurskoðun segir að bæta þurfi gæði kostnaðaráætlana fyrir alla verkþætti verklegra framkvæmda og mannvirkjagerðar.

Einnig þurfi undirbúningur að gerð kostnaðaráætlana við endurbætur á mannvirkjum að fela í sér ítarlega ástandsskoðun.

Stjórnendur hjá borginni vísuðu til þess að meðaltal tekinna tilboða í 170 verkefni á síðasta ári hafi verið um 95 prósent af kostnaðaráætlun og töldu það til marks um að kostnaðaráætlanir væru yfirleitt góðar. Innri endurskoðun tekur undir að það sé einn mælikvarði á gæði kostnaðaráætlana en segir að umfang aukaverka og raunverulegur kostnaður þegar upp er staðið sé alltaf hinn endanlegi mælikvarði á gæði áætlana.

Innri endurskoðun segir að kostnaðaráætlun eins af fjórum verkefnum sem voru tekin til skoðunar hafi verið óraunhæf og að framúrkeyrsla við annað verkefni hafi verið útskýrð með aukaverkum sem rekin voru til þess að hönnun verksins var ekki nógu góð.

„Þá telur Innri endurskoðun það vega afar þungt að síðastliðna mánuði hefur orðspor Reykjavíkurborgar skaðast verulega og langvarandi vegna a.m.k. tveggja verkframkvæmda þar sem kostnaðaráætlanir voru ófullnægjandi og illa unnar,“ segir í skýrslunni.

„Skaðað orðspor hefur beinst jafnt að kjörnum fulltrúum, yfirstjórn borgarinnar, einstökum fagsviðum og starfsmönnum og tekið umtalsverða orku, tíma og fjármuni sem annars væri betur varið í samtíma- og framtíðarverkefni.“

Heimild: Ruv.is