Home Fréttir Í fréttum Heildarorkukostnaður lægstur í Hveragerði

Heildarorkukostnaður lægstur í Hveragerði

68
0

Lægstur heildarkostnaður raforku og húshitunar á landinu er hér í Hveragerði. Hæsta verð í þéttbýli er 69% hærra en lægsta verð. Kemur þetta fram í úttekt Orkustofnunar sem gerð var fyrir Byggðastofnun.

<>

Eftirfarandi frétt (nokkuð stytt) er af heimasíðu Byggðastofnunar:

Byggðastofnun hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum og nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 140 m2 að grunnfleti og 350m3. Gjöldin eru reiknuð út samkvæmt gjaldskrá þann 1. apríl 2015.

Við útreikninga þessa er almenn notkun og fastagjald tekið saman annarsvegar og hitunarkostnaður hinsvegar. Sala á rafmagni er á samkeppnismarkaði og er í útreikningum Orkustofnunar miðað við að allir kaupi orku þar sem orkan fæst á lægsta verði, í þessu tilfelli hjá Orkubúi Vestfjarða.

Ef horft er til heildarkostnaðar þá er kostnaðurinn hæstur í dreifbýli á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða kr. 305.025 en var hæstur á orkuveitusvæði RARIK í dreifbýli árið 2014. (Ef miðað er við algengasta verð er heildarverðið hæst hjá RARIK kr. 317.496). Heildarkostnaður í þéttbýli er hæstur á Hólmavík kr. 278.937 en var hæstur á dreifiveitusvæði Orkubús Vestfjarða s.s. á Hólmavík og dreifiveitusvæði RARIK s.s. í Grundarfirði, Neskaupstað og Vopnafirði árið 2014.

Lægstur er heildarkostnaðurinn í Hveragerði kr. 164.600 en var lægstur á Akureyri árið 2014 . Hæsta verð í dreifbýli er því 85% hærra en lægsta verð í þéttbýli og hefur munurinn minnkað því árið 2014 var munurinn 94%. Í þéttbýli er hæsta verð 69% hærra en lægsta verð og hefur munurinn minnkað því árið 2014 var munurinn 72%.

Heimild: Hveragerði og Byggðastofnun