Home Fréttir Í fréttum Mygla í nýuppgerðum rýmum skólans á Ísafirði

Mygla í nýuppgerðum rýmum skólans á Ísafirði

243
0
Mynd: Ruv.is

Mygla hefur greinst í öllum stofum í heilli álmu í Grunnskólanum á Ísafirði. Útbreiðsla myglunnar kemur skólastjórnendum á óvart en mygla fannst meðal annars í rými sem var tekið í gegn fyrir þremur árum.

<>

Mygla greind víða um land
Í fréttum RÚV hefur verið sagt frá myglu í Breiðholtsskóla og Fossvogsskóla í Reykjavík. Þá eru vísbendingar um myglu í Ártúnsskóla, Seljaskóla og Hagaskóla og verið að skoða raka í Hlíðaskóla.

Á Ísafirði var álma rýmd í grunnskólanum fyrir tveimur vikum vegna myglu í tveimur stofum.

Umfangið kemur á óvart
Í dag varð umfang myglunnar ljóst. „Þótt við værum að vona það besta þá vorum við búin undir það versta og það er einfaldlega mygla í öllum stofum álmunnar,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

„Við sáum náttúrulega hér, þegar upphaflegu sýnin voru tekin, sáum við á málningu, á skemmdum á dúk, en það var ekki raunin uppi, á efri hæðinni, svo við erum mjög hissa,“ segir Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði.

Þurfa að leita að varanlegri lausn
Í álmunni eru meðal annars tíu skólastofur fyrir 1.-4. bekk. Koma þurfti 170 börnum fyrir annars staðar.

„Það er kennt á bókasafni, náttúrufræðistofu, alls staðar þar sem hægt var að koma börnum fyrir en það var rosalega þröngt þannig og nú erum við að finna aðrar lausnir í húsnæði hérna í kringum okkur,“ segir Olga, hún segir að alls staðar hafi þeim verið tekið vel og fólk viljugt til að finna lausnir.

„Klárlega þegar við fáum svona niðurstöður um að þetta geti haft áhrif á heilsu nemenda og kennara þá getum við ekki teflt því í tvísýnu,“ segir Guðmundur Gunnarsson.

Hefur ekki skort viðhald á undanförnum árum
Í fréttum RÚV um helgina var mygla í grunnskólum í Reykjavík og taldi Helgi Grímsson, sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg að mygluna megi rekja til þess að ekki var sett fé í viðhald á árunum eftir hrun.

Því er þó líklega ekki um að kenna í grunnskólanum á Ísafirði. Frá því að sveitarfélagið tók við húsnæðinu af ríkinu fyrir aldamót hafi viðhaldið ekki verið látið sitja á hakanum.

„Það er búið að skipta um klæðningu, það er búið að taka öll salerni í gegn, skipta um alla glugga, þannig að það er búið að gera heilmikið fyrir húsnæðið þannig að ég held að hér sé um uppsafnaðan vanda að ræða og kannski hefði átt að gera eitthvað miklu, miklu fyrr,“ segir Guðmundur.

Heimild: Ruv.is