Home Fréttir Í fréttum Reistu 27 íbúðir á tveimur vikum

Reistu 27 íbúðir á tveimur vikum

431
0
Skjáskot af rúv.is

Tuttuguogsjö íbúða fjölbýlishús sem sett var saman úr einingum er risið í Reykjanesbæ. Tvær vikur tók að reisa húsið og íbúðirnar kosta frá tæpum tuttugu milljónum að tæpum fjörutíu.

<>

Í lok nóvember komu til landsins forsmíðuð timburhús frá Noregi.

Fasteignaþróunarfélagið Klasi flutti húsin inn og kom þeim fyrir á Móavöllum í Reykjanesbæ, þar sem tveimur vikum síðar var risið 27 íbúða fjölbýlishús á fjórum hæðum.

Íbúðirnar fara í sölu á næstu dögum, en aðeins eru um sex mánuðir frá því að vinna á svæðinu hófst.

„Sambærilegt hús, miðað við hefðbundinn byggingarmáta, tæki 18 til 24 mánuði, þannig að tækifærið með þessu er að bregðast fljótt við eftirspurn þar sem hún er,“ segir Halldór Eyjólfsson, þróunarstjóri Klasa.

Er ódýrara að gera þetta svona en með þessum hefðbundna hætti?
„Þetta er mjög hagkvæmur byggingarmáti miðað við þau gæði sem þú færð. Við völdum þá leið að slá ekkert af kröfum, bæði hvað varðar íslenska neytendur og lög og reglugerðir. Og í mörgum tilfellum erum við að ganga lengra en markaðurinn hér þekkir.“

Bíða spenntir
Meðalfermetraverð verður í kringum 400.000 krónur.
„Við erum að bjóða hagkvæmustu íbúðir á undir 20 milljónum, tveggja herbergja íbúðir. Og allt upp í 95 fermetra fjögurra herbergja íbúðir sem verða á 36 til 37 milljónir.“

Halldór segist ekki vita til þess að fjölbýlishús hafi verið reist hér á landi með þessum hætti. Þá segir hann þennan byggingarmáta sérstaklega umhverfisvænan.

„Við höfum fundið að það er mikil eftirvænting og það verður gaman að sjá hvernig viðbrögðin verða.

Við erum hérna í Reykjanesbæ að prófa okkur áfram með þetta verkefni. Hér hefur verið mikil vöntun á nýju, góðu og hagkvæmu húsnæði og við bíðum spenntir eftir því hvernig viðtökurnar verða.“

Stefnið þið svo á að setja upp svona hús víðar á landinu?
„Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Þar sem eftirspurnin er mikil eins og núna teljum við þetta mjög vænlegan kost og klárlega á þetta heima víða annars staðar,“ segir Halldór.

Heimild: Ruv.is