Home Fréttir Í fréttum Ígrundar nýtt útboð í Hús íslenskra fræða

Ígrundar nýtt útboð í Hús íslenskra fræða

298
0
Mynd: Rúv.is

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra íhugar að bjóða á nýjan leik út framkvæmdir við Hús íslenskra fræða við Suðurgötu í Reykjavík. Lilja segir mikilvægt að kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdirnar standist en öll þrjú tilboðin sem bárust voru yfir áætlun.

<>

„Framkvæmdasýslan er núna að fara yfir tilboðin sem bárust.

Í ljós hefur komið að þau eru 20-30% yfir kostnaðaráætlun. Næsta skref í málinu er að Framkvæmdasýslan kemur með tillögur til mennta- og menningamálaráðuneytisins og þá förum við yfir þær.

Ég legg ríka áherslu á að við gætum þess að framkvæmdin sé í takt við þá kostnaðaráætlun sem við höfum lagt upp með. Ég vek athygli á því að það er að hægjast á í hagkerfinu.

Þannig að ég vænti þess að við fáum kannski nýja stöðu fram í málinu þegar við erum komin aðeins lengra inn í árið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fresti til að bjóða í verkið lauk fyrir helgi. Kostnaðaráætlun ríkisins hljóðaði upp á tæplega þrjá komma átta milljarða króna.
Telurðu að það geti verið skynsamlegt að fara aftur í útboð þegar það er orðið kaldara í efnahagslífinu?

„Já ég útiloka það ekki. Mér finnst mjög brýnt að við getum haldið kostnaðaráætlun. Og eins og ég segi þessi tilboð eru 20-30% yfir hana og það er ákveðin vísbending um að þetta er ekki eins og við gerðum ráð fyrir,“ segir Lilja.

Árið 2013 var gengið til samninga við lægstbjóðanda í húsið sem var þó yfir áætlun, en hætt við verkið og greiddi ríkið verktakanum 120 milljónir í skaðabætur.

Heimild: Ruv.is