Home Fréttir Í fréttum Áforma 4 milljarða virkjun á Fljótsdalshéraði

Áforma 4 milljarða virkjun á Fljótsdalshéraði

427
0
Mynd: Ruv.is

Fyrirtækið Artic Hydro áformar að ráðist í fjögurra milljarða króna virkjunarframkvæmdir á Fljótsdalshéraði.

<>

Virkjun í Geitdalsá fylgir nærri þriggja ferkílómetra miðlunarlón í Leirudal austan við Hornbrynju.

Rannsóknir vegna umhverfismats hefjast í sumar næsta sumar og hægt væri að gangsetja virkjunina innan 5 ára.

Virkjunaráformin hafa verið nokkuð lengi í undirbúning en Arctic Hydro hefur beðið um breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs og ætlar að fara með virkjunina í umhverfismat.

Inn af Skriðdal eru Norðurdalur og Suðurdalur og er Geitdalur inn af Norðurdal og Leirudalur enn innar.

Miðlunarlónið yrði þar austan við Hornbrynju, allt að 30 gígalítrar eða 2-3 ferkílómetrar. Það yrði myndað með kílómetra langri og mest 18 metra hárri stíflu í Leirudalsá.

Vatnið færi úr þessu miðlunarlóni um farveg Leirudalsár og svo Geitdalsár niður í sérstakt inntakslón, 30 hektara. Það yrði myndað með 300 metra langri og allt að 32 metra hárri stíflu neðan við ármótin við Ytri-Sauðá.

Úr inntakslóninu færi vatnið um fallpípu niður í stöðvarhúsið. Fallpípan yrði reyndar 6,6 kílómetra löng, niður grafin og á leiðinni yrði bætt í pípuna vatni úr einni þverá.

Fallið yrði 230 metrar og í stöðvarhúsinu myndu hverflar framleiða rafmagn. Það yrði svo flutt um 17 kílómetra jarðstreng í tengivirki Landsnets á Hryggstekk.

„Við höfum verið að horfa á virkjun 8-15 MW en miðað við rennslisrannsóknir þá virðist vera hentugast að vera í kringum 9 MW,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Artic Hydro.

Hann segir að endanleg stærð miðlunarlóns og virkjunarinnar ráðist af frekari rannsóknum og niðurstöðum úr umhverfismati. Drög að matsáætlun verði send út á næstu vikum. „Og við gætum þá hafið rannsóknir í sumar.

Við erum þá að horfa upp á rannsóknarplan upp á 2 ár. Gangsetning virkjunar frá og með deginum í dag yrði þá kannski eftir fimm ár eða eitthvað þess háttar. Nærtækt dæmi sem heimafólk þekkir er miðlunarlónið fyrir Seyðisfjarðarvirkjanirnar.

Þegar þú keyrir yfir Fjarðarheiðina yfir í Seyðisfjörð. Þetta er bara ámóta umfang myndi ég segja.“

Miðlunarlónið hefði líka áhrif á Grímsárvirkjun sem er neðar í vatnasviðinu. Þar yrði jafnara rennsli sem myndi þýða meira rennsli og betri nýtingu á veturna.

Lagður yrði þjónustuvegur fyrir virkjunina upp Geitdal og Leirudal sem Skírnir segir að myndi bæta aðgengi að svæðinu og tengjast slóða sem liggur af Öxi í Bjarnarhíði.

Fljótsdalshérað hefði tekjur af nýju virkjuninni, fasteignagjöld af stöðvarhúsinu en líka leigutekjur af vatnsréttindum. Sveitarfélagið á helming á móti ríkinu.

Fyrstu fimm árin yrði leiga vatnsréttinda 2,5% af öllum tekjum virkjunarinnar, en myndi svo hækka í 5% og upp í 10% í skrefum á 30 árum frá gangsetningu.

Heimild: Ruv.is