Home Fréttir Í fréttum Óvíst með framkvæmdir við Hús íslenskra fræða

Óvíst með framkvæmdir við Hús íslenskra fræða

517
0
Mynd: arnastofnun.is

Öll tilboð í hús og lóð Húss íslenskra fræða voru yfir kostnaðaráætlun og munaði allt að 35%. Ekki liggur fyrir hvort einhverju tilboði verður tekið.

<>

Einn tilboðsgjafa telur að gefa hefði átt upp kostnaðaráætlun í útboðinu, þar sem ríkið sagðist ætla að hafna öllum tilboðum yfir kostnaðaráætlun, nema tækist að útvega viðbótarfjármagn.

Nokkurn tíma hefur tekið að koma verkinu áfram, svo langan að gárungarnir hafa gefið því uppnefnið „Hola íslenskra fræða.“

Þrjú tilboð bárust í verkið. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 3.753.850.000. Ístak átti lægsta tilboðið, 4.519.842.188, sem er liðlega 20% yfir kostnaðaráætlun. Tilboð Íslenskra aðalverktaka var aðeins hærra, 4.597.291.955 eða rúmlega 22% yfir kostnaðaráætlun og hæsta tilboðið kom frá Eykt, 5.096.909.801 sem er rúmlega 35% yfir því sem gert var ráð fyrir.

Þetta þýðir að lægsta tilboð var hátt í 800 milljónum yfir kostnaðaráætlun, en hæsta tilboð 1,3 milljörðum.

Eykt lét bóka eftirfarandi þegar tilboðin voru opnuð:

„Þar sem verkkaupi ætlar að hafna öllum tilboðum yfir kostnaðaráætlun þá hefði verið eðllegt að birta kostnaðaáætlun í útboðsgögnum vegna kostnaðar verktaka við tilboðsgerð.“

Þar vísar Eykt væntanlega í þennan fyrirvara sem settur var í útboðsgögn:
„Verkkaupi mun hafna öllum tilboðum sem eru yfir kostnaðaráætlun en áskilur sér þó rétt til að taka tilboðum sem eru yfir kostnaðaráætlun, að því gefnu að honum takist að útvega fjármagn sem upp á vantar.“

Þetta er í annað sinn sem þetta verk er boðið út. Það var síðast gert árið 2013. Þá hljóðaði kostnaðaráætlun upp á 2.920.000.000. Þá, eins og nú, bárust þrjú tilboð. Jáverk átti lægsta tilboði sem var liðlega 8% yfir kostnaðaráætlun, tilboð Íslenskra aðalverktaka var rúmlega 12% yfir og Ístak ætti hæsta tilboðið sem var tæplega 25% yfir kostnaðaráætlun.

Gengið var til samninga við Jáverk, en ekkert varð af verkinu og samþykkti Alþingi árið 2016 að greiða Jáverki 120 milljónir króna í skaðabætur þar sem ekkert varð af verkinu.

Ekki liggur fyrir nú hvort verkinu verður frestað aftur.

Verið er að fara yfir tilboðin sem bárust og verður niðurstaðan send mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem lét bjóða verkið út.

Heimild: Ruv.is