Home Fréttir Í fréttum 3,3 milljarðar í Landeyjahöfn á næstu árum

3,3 milljarðar í Landeyjahöfn á næstu árum

196
0

Langstærstur hluti ríkisfjár sem á að fara í sjósamgöngur í samgönguáætlun fer í Landeyjahöfn. Margar stórar hafnarframkvæmdir eru í pípunum, enda löngu tímabærar.

<>

Sótt var um margalt meira fjámagn en fékkst.

Margar framkvæmdir í pípunum
Ríkið styrkir hafnarframkvæmdir á landsbyggðinni um sem nemur 60 til 90 prósentum af kostnaði.

Samkvæmt samgönguáætlun næstu fimm ára á að verja fimm milljörðum til nýrra hafnarframkvæmda, en hafnir landsins sóttum framkvæmdir fyrir um 36 milljarða.

Framkvæmdaþörfin er því brýn. Stærstu hafnarframkvæmdir næstu fimm ára eru fyrirhugaðar í Ólafsvík, Grundarfirði, á Bíldudal, á Ísafirði og á Akureyri.

Eins eru fyrirhugaðar miklar framkvæmdir á Húsavík og sömu sögu er að segja í Þorlákshöfn.

Vilja flýta framkvæmdum
Hafnarframkvæmdir eru víða brýnar og á Ísafirði hefur til dæmis verið gagnrýnt að ekki eigi að ráðast í framkvæmdir fyrr en seint á tímabilinu þótt sveitarfélagið hafi verið tilbúið til framkvæmda um nokkurt skeið.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að hafnarframkvæmdum verði flýtt eins og kostur er og forgangsröðun verði endurskoðuð við gerð næstu samgönguáætlunar.

Leggja áherslu á rafvæðingu hafna
Í meirihlutaálitinu er lögð sérstök áhersla á rafvæðingu helstu hafna og að ferjur séu búnar með viðeigandi hætti. „Við erum alveg í kjöraðstæðum til þess. Stuttar siglingar og erum mikið í landi. Þannig að það væri flott að fara á hreina orku,“ segir Anton Már Steinarsson, skipstjóri á Hríseyjarferju.

Hefðu vilja sjá samgöngumiðstöð í Dalvíkurbyggð
Dalvíkurbyggð hefur meðal annars þá sérstöðu að það eru tvær ferjuhafnir í sveitarfélaginu. Grímseyjarferjan Sæfari siglir frá Dalvík til Grímseyjar, á meðan Hríseyjarferjan Sævar siglir til og frá Árskógssandi.

„Við hefðum kannski viljað sjá á samgönguáætlun koma inn samgöngumiðstöð fyrir fólk sem er á leið til Grímseyjar. Það er ekki nógu góð aðstaða fyrir það hér,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri á Dalvík.

Mest í sjósamgöngur tengdum Eyjum
Stærsti útgjaldaliðurinn sjósamgöngum tengist Vestmannaeyjum. Vestmannaeyingar fá nýja og langaþráða ferju innan tveggja mánaða sem leysir gamla Herjólf af hólmi.

Sérstök 800 milljóna viðbótarfjárveiting er lögð til að rafvæða hana. Svo er Landeyjahöfn.

Þangað eiga að fara 3,3 milljarðar á næstu fimm árum, þar af um 730 milljónir í botndælubúnað nú 2019 til að hún geti sinnt hlutverki sínu, sem aðalsamgönguæðin til Eyja.

En það eru fleiri hafnir en Landeyjahöfn sem þarf að dýpka. Meirihluti og samgöngunefndar vill setja árlega um 60 þúsund rúmmetra dýpkun í innsiglingunni við Þorlákshöfn í forgang og nota til þess 40 milljónir á ári.

Kvíðir því frekar að sigla til Þorlákshafnar
Mæðginin Ægir Freyr Valsson og Bára Ingólfsdóttir, eru íbúar í Vestmannaeyjum. Verðiði sjóveik? „Ég verð ekki sjóveik en hann verður sjóveikur,“ segir Bára. Ægir Freyr segir sjóveikina mjög óþægilega.

Það er misjafnt hversu oft mæðginin fara í Herjólf en nú sé Ægir í tannréttingum í Reykjavík svo það sé frekar reglulegt. Kvíðiru því að fara í Herjólf? „Bara ef ég fer í Þorlákshöfn því það er svo lengi svo ef maður nær ekki að sofna þá er það ógeðslegt,“ segir Ægir.

Núverandi Herjólfur verði áfram í Eyjum
Gísli Valur Gíslason er skipstjóri á Herjólfi. Hann fer bráðum að ná í nýja skipið, sem má ekki kalla dall. Hann segir að helsti munurinn verði aldurinn enda núverandi Herjólfur orðinn 26 ára.

Nýja skipið verði mun þægilegra fyrir farþegann. Gísli Valur segir að gamli Herjólfur verði þó í Eyjum áfram, fyrst um sinn. „Hann verður í Vestmanneyjum í tvö ár, til taks ef eitthvað klikkar.“

Heimild: Ruv.is