Home Fréttir Í fréttum Nýja sjúkrahótelið hefur kostað 2,3 milljarða króna

Nýja sjúkrahótelið hefur kostað 2,3 milljarða króna

147
0
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Mynd: Fréttablaðið/Stefán

Núverandi kostnaður vegna heildarframkvæmdarinnar við 75 herbergja sjúkrahótel við Hringbraut er 2.143 milljónir króna, óverðbætt og án innbúnaðar.

<>

Samkvæmt upplýsingum frá Nýja Landspítalanum ohf. er um að ræða framúrkeyrslu upp á 7,8 prósent frá uppfærðum kostnaðaráætlunum.

Það skýrist meðal annars af breytingum á klæðningu hússins og magnaukningu í raflögnum og loftræstingu. Kostnaður vegna innbúnaðar eftir útboð er um 150 milljónir króna.

Alls gerir þetta tæplega 2,3 milljarða króna.

Sjúkrahótelið var afhent í gær. Á næstu árum rís á reit Nýs Landspítala við Hringbraut meðferðarkjarni, rannsóknarhús og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

Í tilkynningum til fjölmiðla í gær kom kostnaðurinn við sjúkrahótelið ekki fram. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., sagði í Fréttablaðinu í gær að sá kostnaður yrði ekki upplýstur fyrr en eftir afhendingu.

Fyrsta skóflustungan að sjúkrahótelinu var tekin 2015. Átti það að vera fullbyggt vorið 2017 en á því ári urðu deilur milli verktaka og verkkaupa um framvinduna.

Í lok nóvember 2018 varð sátt um verkskil og deilumálinu vísað til gerðardóms.

Klæðning sjúkrahótelsins er sérstök og í raun listaverk, unnið af Finnboga Péturssyni myndlistarmanni. Verkið tafðist verulegu vegna hennar.

„Verkkaupi ákvað í ljósi endurrýni og öryggismats á festingakerfi klæðningarinnar að láta endurhanna kerfið og fara fram með um leið dýrari lausn en gert var ráð fyrir í upphafi til að tryggja öll umhverfis- og öryggissjónarmið.

Við það breyttist kostnaðarmat hússins,“ segir í svari Nýja Landspítalans ohf. til Fréttablaðsins.

Heimild: Visir.is