Home Fréttir Í fréttum 75 herbergja sjúkrahótel afhent

75 herbergja sjúkrahótel afhent

173
0
Nýja sjúkrahótelið stendur við Hringbraut í Reykjavík. Mynd: Eva Björk Ægisdóttir /vb.is

Ríflega 4.000 fermetra sjúkrahótel Nýs Landspítala við Hringbraut er tilbúið, en afhending þess fór fram í dag.

<>

Framkvæmdum við ríflega 4 þúsund fermetra sjúkrahótel Nýs Landspítala við Hringbraut er lokið og í dag fór fram afhending hússins sem inniheldur 75 misstór herbergi auk vinnuaðstöðu starfsfólks.
Sjúkrahótelið er fyrsti áfangi í heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins, rannsóknahús og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.
Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spitalhópnum.

Samkvæmt fréttatilkynninu er húsið prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni.

Sjúkrahótelið er fjórar hæðir og kjallari. Fjöldi herbergja er 75 að fjölbreyttri gerð og á hótelinu og er aðstaða fyrir fatlaða og stærri herbergi fyrir fjölskyldur.

Hótelið er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó), með móttöku, veitingasal, sólstofu, vinnuaðstöðu hjúkrunarfræðinga og samtengt Landspítalanum með kjallara og tengigöngum.

Vonast til að létti álagi af sjúkrahúsinu
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að tilefni afhendingarinnar: „Dagurinn í dag markar tímamót í heilbrigðisþjónustu við alla landsmenn og er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar.

Meðal annars mun opnun sjúkrahótelsins stuðla að því mikilvæga markmiði að sjúklingar fái þjónustu á réttu og viðeigandi þjónustustigi, líkt og er leiðarstef í þeirri heilbrigðisstefnu sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.“

Bjarni Benediktsson fjármála – og efnahagsráðherra segir hótelið mikilvægan áfanga við að tryggja fyrsta flokks heilbrigðisaðstöðu fyrir landsmenn.

„Sjúklingar, aðstandendur þeirra, fjölskyldur – fjölbreyttur hópur fólks af öllu landinu mun njóta góða af þeirri góðu aðstöðu sem hér er að finna og það fer ekki fram hjá neinum sem fer um húsið að hér hefur verið vandað til verka og hugað að hverju smáatriði,“ segir Bjarni.

„Ég vona að sjúkrahótelið styðji við rekstur spítalans og létti álagi af honum þar sem allt of oft er verið að nota of dýr úrræði til að leysa vanda sjúkra.

Hér eru fjölbreytt tækifæri, bæði tengd gistirýmum en einnig annarri þjónustu sem hægt að er veita hér t.d. á grundvelli þess glæsilega eldhúss sem komið hefur verið upp.

Væntanlega skýrast slíkir þættir betur verði reksturinn boðinn út að loknum samningstímanum við LSH.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala sagði: „Sjúkrahótelið veitir Landspítala kærkomið tækifæri til að efla enn frekar þjónustu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Stefnt er að að opnun hótelsins núna á vordögum, vonandi í aprílmánuði. Tilkoma hótelsins markar sömuleiðis ákveðin tímamót í uppbyggingu Landspítalaþorpsins við Hringbraut þar sem framkvæmdir við aðrar nýbyggingar okkar þar eru löngu hafnar og ganga vel.

Framundan eru spennandi tímar.”
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH sagði: „Við sem stöndum að Hringbrautarverkefninu erum hreykinn á þessum degi nú þegar við sjáum fyrir endann á byggingu þessa glæsilega húss.

Ég er þess fullviss að sjúkrahótelið mun gerbreyta aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Annar áfangi Hringbrautarverkefnisins er hafinn en það eru jarðvinnuframkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna.

Áætlanir okkar eru þær að byggingu spítalans verði lokið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun Alþingis 2019-2023“.

Heimild: Vb.is