Búfesti og Félag eldri borgara á Akureyri hyggjast í sameiningu standa fyrir byggingu fjölda nýrra íbúða á Akureyri í forgangi fyrir 60 ára og eldri.
Félögin hafa óskað eftir því að bæjaryfirvöld taki frá hentug byggingarsvæði.
Húsnæðissamvinnufélagið Búfesti hefur gert sig gildandi á húsnæðismarkaðnum og fer starfsemin ört vaxandi.
Félagið hefur leitað samstarfs við sveitarfélög á Norðurlandi. Undir lok síðasta árs var gerður samningur við Norðurþing um að auka framboð leigu- og búseturéttaríbúða.
Fyrr á árinu hafði verið undirritað samkomulag við Akureyrarbæ um lóðir undir allt að 125 nýjar íbúðir.
Í skoðun að byggja upp nýjan kjarna
Nú hefur félagið, í samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri, lagt inn erindi hjá bæjaryfirvöldum á Akureyri með ósk um að tekið verði frá byggingarsvæði fyrir „umtalsverðan fjölda“ íbúða, sem væru í forgangi fyrir 60 ára og eldri.
Í tilkynningu frá Búfesti segir að þessar íbúðir gætu verið í nágrenni við þjónustukjarna, sem fyrir eru, eða á nýju byggingarsvæði þar sem þjónusta yrði byggð upp.
Í tilkynningunni segir jafnframt að mögulegt væri að koma til móts við ólíkar þarfir eldri borgara.
Í fyrsta lagi með byggingu leiguíbúða fyrir þá sem eru lakast settir, í öðru lagi með byggingu búseturéttaríbúða og í þriðja lagi með því að bjóða fólki að fullfjármagna sínar íbúðir í búseturétti eða séreign.
Íbúðirnar of dýrar hingað til
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búfesti, segir mikla þörf á að byggja húsnæði á viðráðanlegu verði, sem tekur mið af þörfum varðandi aðgengi og innréttingar.
Hann segir að þær íbúðir sem hafi verið byggðar á undanförnum árum, og ætlaðar eldri borgurum, hafi verið dýrar og eftirspurnin ekki nægilega mikil.
Þetta sé hins vegar ný nálgun. „Í forgang setjum við að byggja ódýrar íbúðir og vera með lágmarksstærðir,“ segir Benedikt.
Aðspurður segir Benedikt ekki liggja fyrir hversu margar íbúðir verða byggðar, en það ráðist að nokkru leyti á væntanlegum byggingarsvæðum.
Ef ákveðið verði að byggja á nýju svæði verði íbúðirnar fleiri en ella, líklega yfir 100 talsins.
Hann bendir á að þessi þjóðfélagshópur fari stækkandi og því komi þörfin til með að aukast enn frekar á næstu árum.
Heimild: Ruv.is