Home Fréttir Í fréttum Grænt ljós á tvöföldun

Grænt ljós á tvöföldun

210
0
Mynd: FBL/Pjetur

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi til að tvöfalda Reykjanesbraut.

<>

Um er að ræða kaflann frá Kaldársselsvegi og vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar.

Í umsókn Vegagerðarinnar segir að brautin verði lögð í þröngu sniði með einungis þriggja metra breiða miðeyju milli akbrauta. Brautin verði grafin niður allt að fjóra metra á tveimur köflum.

Annars vegar frá núverandi göngubrú við Ásland og að Strandgötu og hins vegar gegnum Hvaleyrarholtið frá Þorlákstúni og vestur fyrir nýju undirgöngin við Suðurbraut.

Breikka þarf brúna yfir Strandgötu og er það hluti af framkvæmdinni. Gerðar verða tvær nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut.

Önnur milli Hvamma og Áslands á móts við Álftaás og hin í stað núverandi undirgangna við Þorlákstún. Þær veðra stálbogabrýr og spanna brautina í einu hafi.

Ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenninu en settar verða upp hljóðmanir, hljóðveggir og glerveggir.

Samþykki bæjarráð Hafnarfjarðar tillögu skipulags- og byggingaráðs er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á árinu og verklok verði árið 2020. Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum.

Heimild: Visir.is