Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar hafnar

Framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar hafnar

452
0
Skjáskot af Ruv.is

Framkvæmdir við höfuðstöðvar nýs Landsbanka eru hafnar. Stefnt er að því að flytja höfuðstöðvarnar eftir þrjú til fjögur ár. Áætlaður kostnaður við framkvæmdir nemur níu milljörðum króna.

<>

Hugmyndir um nýjar höfuðstöðvar Landsbankans fyrir neðan Arnarhól eru ekki nýjar af nálinni.

Sumarið 2008, skömmu fyrir hrun, var blásið til hugmyndasamkeppni um nýjar höfuðstöðvar.

Skömmu eftir hrun voru úrslitin svo tilkynnt, en þá þótti strax ljóst að vinningstillagan yrði ekki að veruleika.

Nú tíu árum síðar eru framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar hins vegar loks að hefjast við hlið Hörpu við Austurhöfn.

Þar ætlar bankinn að reisa 16.500 fermetra byggingu sem byggð er á nýrri vinningstillögu, auk bílakjallara. Bankinn ætlar að nýta 10.000 fermetra en restin verður nýtt undir aðra þjónustu.

Bankinn tekur þátt í sameiginlegum framkvæmdum á lóðinni sem eru hafnar, meðal annars gerð Reykjastrætis sem liggur á milli bankans, hótelsins og íbúðanna sem nú eru í byggingu.

Reiknað er með að útboð jarðvinnu fari fram á næstu mánuðum og að uppsteypa verði boðin út í sumar.

Hvenær er svo markmiðið að flytja höfuðstöðvar bankans?
„Ef þú spyrð mig og starfsfólk bankans, þá viljum við auðvitað flytja sem fyrst. En það tekur þrjú til fjögur ár héðan í frá að klára verkefni af þessari stærðargráðu. Og við göngum örugglega til verks,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

Hagkvæm niðurstaða
Í dag er bankinn með starfsemi í 13 húsum í Kvosinni sem Lilja segir mjög óhagkvæmt, enda leigi bankinn mörg þeirra. Eitt fárra húsa sem bankinn á eru höfuðstöðvarnar við Austurstræti 11, sem til stendur að selja.

„Þetta hús og tvö önnur hús sem við erum með hérna í Kvosinni, þau eru metin á um tvo milljarða í heild í fasteignamati.“
Lilja vill fara varlega í að nefna áætlaðan kostnað við nýjar höfuðstöðvar.

„Við hófum vegferðina, þegar við vorum að skoða eitthvað hús á einhverjum stað, með töluna níu milljarða í huga fyrir verkefnið. Síðan þá er búið að velja hús og hanna og nú er verið að reyna að fá sem hagkvæmasta niðurstöðu í hver endanlegi kostnaðurinn verður,“ segir Lilja Björk.

Heimild: Ruv.is