Home Fréttir Í fréttum Reykhólahreppi óheimilt að velja óöruggari leið

Reykhólahreppi óheimilt að velja óöruggari leið

245
0
Frá Reykhólasveitarvegi Mynd: Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Ákvæði vegalaga gætu meinað Reykhólahreppi að velja R-leið með Þorskafjarðarbrú þar sem sveitarfélagi er óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis.

<>

Þá er Vegagerðinni heimilt að krefja hreppinn um þann kostnaðarmun, sem talinn er á leiðunum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Íbúar á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal héldu að loksins væri komið að því hefja langþráðar vegarbætur í Gufudalssveit þegar ný hreppsnefnd Reykhólahrepps setti málið óvænt í nýjan farveg með hugmynd um stórbrú yfir utanverðan Þorskafjörð í stað vegar um Teigsskóg.

ÞH-leiðin um Teigsskóg er fullfjármögnuð á samgönguáætlun, sem gerir ráð fyrir upphafi framkvæmda á þessu ári.

„Við erum brjáluð. Nei. Jú, við erum bara líka sorgmædd af því að fjórðungurinn hefur staðið saman undanfarna áratugi um að fara þessa leið, ÞH-leiðina, eða allavegana að gera þetta eins hratt og hægt er.

Og við eygðum það núna,“ sagði Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar, í viðtali við Stöð 2 að loknum fundi

Ingimar Ingimarsson oddviti, Karl Kristjánsson hreppsnefndarmaður og Tryggvi Harðarson sveitarstjóri voru fulltrúar Reykhólahrepps á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fyrir helgi. Stöð 2/Sigurjón Ólason.

Ráðamenn Reykhólahrepps hafa í raun lýst vantrausti á vinnubrögð Vegagerðarinnar og tefla fram skýrslum eigin ráðgjafa um að leiðirnar kosti svipað, meðan Vegagerðin stendur við álit sitt um að brúarleiðin sé fjórum milljörðum króna dýrari.

„Allir þeir sem að þessu hafa komið, og skoðað þetta ofan í kjölinn, þeir meta svo að kostnaðurinn verði svona innan skekkjumarka milli ÞH-leiðar og Reykhólaleiðar. Vegagerðin má hafa sína skoðun en þeir eru líka með allt aðrar forsendur en við gefum okkur,“ sagði Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Í þessum slag við Vegagerðina hefur Reykhólahreppur klárlega skipulagsvaldið. Sveitarfélagið getur samt ekki hunsað ákvæði 28. greinar vegalaga sem færa Vegagerðinni ákveðin vopn. Þar er kveðið á um það að sveitarfélagi sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis.


900 metra löng brú þvert yfir mynni Þorskafjarðar, eins og hún er sýnd í skýrslu Vegagerðarinnar. Grafík/Vegagerðin.

Í úttekt Vegagerðarinnar í haust var raunar staðhæft að brúarleiðin fæli í sér minna umferðaröryggi en vinna við sérstakt umferðaröryggismat er núna á lokastigi.

Vestfjarðaumferðin myndi færast yfir á Reykhólasveitarveg með R-leið en Vegagerðin telur hann ekki hæfan fyrir slíka umferðaraukningu nema með töluverðum endurbótum, sem kosti mikla fjármuni. Hann sé mjór, með kröppum beygjum og hæðum, lagfæra þurfi hliðarsvæði og setja upp vegrið til að auka umferðaröryggi.

Ef ákvæðið um umferðaröryggi kæfir ekki drauma Reykhólamanna hefur Vegagerðin annað úrræði í 28. grein vegalaga; heimild til að krefja Reykhólahrepp um að greiða kostnaðarmuninn á leiðunum tveimur, sem er óvíst að svo lítill hreppur gæti staðið undir.

Leið Þ-H færi um Teigsskóg. Leið R færi um Stað og Reykhóla. Grafík/Hlynur Magnússon.

 

Og talandi um tafir. Hér gæti verið í uppsiglingu stjórnsýslulegur ágreiningur milli Vegagerðarinnar og hreppsins, sem þarf sinn tíma að leysa úr; kannski hálft ár, kannski heilt ár, – áður en málið kemst áfram á næsta stig.

Vegagerðin hefur boðað til íbúafundar í Reykhólaskóla næstkomandi miðvikudag, 9. janúar, klukkan 16.30, þar sem fulltrúar hennar hyggjast skýra sín sjónarmið.

Heimild: Visir