Framkvæmdagleði ríkir hjá kúabændum landsins um þessar mundir því víða má sjá byggingakrana á sveitabæjum þar sem verið er að byggja ný fjós, ekki síst á Suðurlandi.
Bændur eru einnig að byggja við eldri fjós.
Á sama tíma fækkar kúabændum í landinu en afurðir aukast því kýrnar eru að mjólka miklu meira en þær gerðu til að mynda fyrir tuttugu árum síðan. Í dag eru tæplega sex hundruð kúabú í landinu.
Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda er ánægð með hvað kúabændur eru duglegir að byggja.
„Já, það hefur verið töluverð framkvæmdagleði í kúabændum sem er mjög vel.
Við sjáum það að það er mikill metnaður að uppfylla nýjar aðbúnaðarreglugerðir, við sáum það núna í byrjun árs að í fyrsta sinn eru lausagöngufjós, það er að segja fjós þar sem kýrnar ganga frjálsar um.
Þau eru orðin fleiri heldur en hin hefðbundnu básafjós,“ segir Margrét.
„Við erum að sjá að Íslendingar eiga heimsmet í mjólk sem kemur frá mjaltaþjónum svokölluðum, róbotum sem sjá um að mjólka og kýrnar fara sjálfar þegar þær vilja vera mjólkaðar svo þær geta ráðið því sjálfar.“
Fjós hafa stækkað mikið á síðustu árum, þau stærstu eru með yfir tvö hundruð kýr. Margrét segir slík fjós þó ekki flokkast sem verksmiðjufjós.
„Það er ekki nema þrjú til fjögur fjós á Íslandi sem eru svona stór. Þá erum við að tala um að það eru 200 til 240 mjólkandi kýr.
Þau eru ekki stærri en það og þau eru í rauninni langstærst. Meðal bústærðin er um 47 kýr í dag á Íslandi,“ segir Margrét Gísladóttir framkvæmdarstjóri Landssambands kúabænda.
Heimild: Visir.is