Home Fréttir Í fréttum Meðalkostnaður braggans 16 milljónir á mánuði

Meðalkostnaður braggans 16 milljónir á mánuði

117
0
Mynd: RÚV
Það að fyrrverandi skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar, hafi ekki upplýst yfirmenn sína um stöðu mála vegna framkvæmda við umdeildan bragga á Nauthólsvegi leysir þá ekki undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar og verkefni hennar. Meðalkostnaður borgarinnar vegna framkvæmda við braggann á mánuði í tvö ár var 16 milljónir.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Innri endurskoðunar um braggaverkefnið sem gerð var opinber 20. desember.

<>

Í skýrslunni segir meðal annars að bæði Stefán Eiríksson, borgarritari, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hafi staðfest við Innri endurskoðun að þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar varðandi braggaverkefnið.

Þá hafi Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, staðfest að hann hafi ekki upplýst þá um stöðu framkvæmdanna.

 

Í skýrslunni segir þó að hann hafi „ekki getað skýrt hvernig á því stóð.“

Innri endurskoðun segir að það að Hrólfur hafi ekki upplýst borgarritara eða borgarstjóra um stöðu mála leysi þá ekki undan þeirri ábyrgð að hafa heildarsýn yfir rekstur einingarinnar og verkefni hennar.

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hafi heyrt undir borgarritara og síðan sé borgarstjóri yfirmaður hans.

Það sé þó ekki hlutverk borgarritara að hafa beinlínis eftirlit með daglegum verkefnum skrifstofunnar en eftirlitskyldan hafi falist í því að kalla eftir upplýsingum og skýrslum.

Borgarritara hafi því  borið að fylgjast með því sem gerðist þar innan veggja með því að kalla eftir skýrslum um framvindu mála. Þótt fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hafi sótt sín mál framhjá borgarritara og til borgarstjóra leysi það borgarritara ekki undan þeirri ábyrgð sem hann hafi haft.

Endurskoðunarnefnd borgarinnar sagði í bréfi til borgarráðs eftir að skýrslan var kynnt að mikilvægt væri að borgarráð óskaði eftir formlegum viðbrögðum viðkomandi stjórnenda við niðurstöðum skýrslunnar.

Í skýrslunni segir jafnframt að framkvæmdakostnaður borgarinnar við Braggann nemi 425 milljónum.

HR hafi auk þess borgað 27,5 milljónir fyrir innanhússhönnun og innréttingar og því nemi heildarkostnaðurinn 452 milljónum króna.

Þá segir í skýrslunni að ekki liggi fyrir hver samþykkti það af hálfu borgarinnar að gera braggann að veitingastað með vínveitingaleyfi en upphafleg hugmynd hafi verið að hafa þar einfalt kaffihús.

Ekki liggi fyrir neinar skriflegar heimildir og enn séu misvísandi upplýsingar um það frá fyrrverandi skrifstofustjóra og verkefnastjóra á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

Þessar breytingar hafi haft í för með sér aukinn kostnað, meðal annars þar sem uppfylla þurfti ströngustu kröfur opinberra eftirlitsaðila með veitingastaðarekstri.

Jafnframt segir að lóð í kringum braggann hafi fyrst átt að vera einföld með trépalli og átti kostnaður að vera í kringum tíu til tólf milljónir.

Á verkefnistímanum hafi hún breyst í hannaða lóð með þreföldum kostnaði sem hafi numið 37 milljónum króna. „Ekki liggur fyrir hvort fyrrverandi skrifstofustjóri á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar var upplýstur um þessa breytingu.“

Braggamálinu virðist hvergi nærri lokið. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun að braggamálið gæti endað sem lögreglumál. Þá hefur Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, krafist þess að borgarstjóri taki ekki sæti í hóp sem átti að rýna í niðurstöður skýrslu Innri endurskoðunar.

Verði borgarstjóri ekki við kröfunni muni hún sjálf gefa sæti sitt laust.

Heimild: Ruv.is