Í stefnuræðu bæjarstjórnar Vesturbyggðar kemur fram að heildartekjur hafnarsjóðs hækki umtalsvert milli ára og eru áætlaðar 155 miljónir króna.
Að frádregnum gjöldum eru rekstur hafnarsjóðs Vesturbyggðar áætlaður jákvæður upp á 33 milljónir króna á næsta ári. Þetta er rakið til aukinna umsvifa í fiskeldi í Vesturbyggð, aukningar á komu skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar og strandsiglinga Samskipa til Bíldudalshafnar.
Í ræðunni er vitnað ti úttektar Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagsstöðu íslenskra hafna í fyrra. Þar komi fram að aflagjöld sem runnið hafi í hafnarsjóð 2008 til 2017 fyrir hafnir Vesturbyggðar hafii aukist um 32,3 prósent, sem sé ein mesta aukning í aflagjöldum í höfnum landsins.
Í stefnuræðunni kemur fram að á næsta ári verði í Bíldudalshöfn ráðist í tengingu stórskipakants og hafskipakants annars vegar og hinsvegar að hafskipabryggja verði endurbyggð.
Hafnarbótasjóður veitir 96,4 milljónir króna fjárveitingu til verksins en heildarkostnaður við framkvæmdina á næsta ári nemur 167,6 milljónum króna. Fjárhagsáætlun gerir því ráð fyrir 71,2 milljónum króna til framkvæmdarinnar, segir í stefnuræðunni, sem birt er á vef sveitarfélagsins.
Vegna aukinna umsvifa í Bíldudalshöfn er í fjárhagsáætluninni gert ráð fyrir að stöðugildi við höfnina verði aukið um 50 prósent. Þá er gert ráð fyrir að starf hafnarstjóra verði 50 prósent og ekki lengur hluti af starfi bæjarstjóra eins og síðustu ár.
Vegirnir hafi verið atvinnulífinu dýrir
Rebekka vonast til að vegirnir í fjórðungnum verði lagaðir á næstunni. „Það er nú eitt af þessum risaverkefnum á næstu árum að fá almennilega tengingu við umheiminn.
Það er vegalagningin um Gufudalssveit. Það er eitt af því sem nauðsynlega þarf að komast í horf og mikið sem liggur þar undir. Miklir hagsmunir.
Atvinnulífið hér hefur þurft að punga vel út fyrir þeim samgöngum sem við sitjum uppi með núna í dag. Það er gríðarlegur kostnaður sem fylgir, álag á bifreiðar og fólk líka, því það er verið að keyra þetta allt árið um kring.
Þetta eru samgöngubætur sem ég held að allir hér á þessu svæði eru löngu búnir að missa alla þolinmæði að bíða eftir, eftir þessi 20 ár sem þetta hefur tekið.“
Heimild: Ruv.is