Unnið er við að leggja nýja vatnslögn meðfram Kringlumýrarbraut þriðjudaginn 26. maí – verður byrjað að grafa fyrir henni þvert á Háaleitisbraut. Vegna framkvæmdanna verður þeim kafla Háaleitisbrautar sem liggur frá Kringlumýrarbraut að Skipholti lokað tímabundið. Áætlað er að lokunin vari í viku en brjóta verður lögninni leið um klöpp undir götunni.
Framkvæmdin hefur ekki áhrif á umferð bíla um Kringlumýrarbraut að frátöldu því að ekki verður hægt að beygja af Kringlumýrarbraut inn á þennan kafla Háaleitisbrautar að Skipholti. Lokunin hefur aðeins áhrif á leið 11 hjá Strætó og verða tilkynningar settar upp á þær biðstöðvar sem falla tímabundið úr þjónustu. Gangandi og hjólandi um gatnamótin þurfa einnig að leggja lykkju á leið sína. Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát við framkvæmdasvæðið og á hjáleiðum.
Nýr hjólastígur nýtur góðs af vatnslögninni
Framkvæmdin í heild er lagning 600 mm vatnslagnar meðfram Kringlumýrarbraut frá dæluhúsi neðan við Laugaveg upp að Miklubraut. Vatnslögnin kemur meðfram núverandi gönguleið vestan Kringlumýrarbrautar og á síðari stigum verksins kemur nýr hjólastígur ofan á hana. Jarðvegsframkvæmdir nýtast þannig bæði vatnslögninni og hjólastígnum.
Verkið er unnið í samstarfi Reykjavíkurborgar, Orkuveitunnar, Mílu og Vegagerðarinnar.
Heimild: Reykjavíkurborg