Home Fréttir Í fréttum Boðar breytingar á samgönguáætlun

Boðar breytingar á samgönguáætlun

118
0
Mynd: Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Óhjákvæmilegt er að breytingar verði gerðar á samgönguáætlun, segir Jón Gunnarsson, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Það gildi ekki aðeins um vegagerð heldur einnig um flugvelli og hafnir. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

<>

Óhætt er að segja að samgönguáætlun sem ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi í haust hafi valdið vonbrigðum nánast um land allt. Margir bjuggust því við að þingið myndi bæta við fjármunum til málaflokksins en þvert á móti kom fjárlaganefnd með tillögu um niðurskurð, sem umhverfis- og samgöngunefnd undir forystu Jóns Gunnarssonar glímir nú við.

Samgönguáætlun er til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Jón Gunnarsson situr í forsæti þingnefndarinnar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

En er nefndin búin að ákveða hvar verði skorið niður?

„Niðurskurðurinn er um 400 milljónir. Já, já. Við erum að glíma við það og það eru svo sem leiðir til þess,“ svarar Jón.

„En ef við náum að draga upp þá sviðsmynd, sem gæti blasað við, ef farin yrði þessi veggjaldaleið, þá verður allt annað landslag hér strax árið 2020-21. Þannig kýs ég nú að horfa á heildarmyndina. Þannig að þessi niðurskurður ætti þá ekki að koma að sök.“

Frá Reykjanesbraut. Breikkun brautarinnar milli Hafnarfjarðar og Leifsstöðvar klárast að óbreyttu ekki fyrr en árið 2033.Vísir/Vilhelm

Þingnefndin stefnir að því að klára bæði fimm ára og fimmtán ára samgönguáætlun fyrir lok næstu viku en þar er verið að skipta yfir tvöhundruð milljörðum króna til nýframkvæmda. Talan gæti orðið hærri með veggjöldum. En mun þingnefndin hreyfa til verkefnum að ráði?

„Ja, það byggist svolítið á því hvaða sviðsmynd verður fyrir valinu hjá okkur.

Það verður að gera ákveðnar breytingar á samgönguáætlun. Það er víða kallað á meira fjármagn, ekki bara í vegaframkvæmdir.

Frá Akureyrarflugvelli. Verið er að sturta efni úr Vaðlaheiðargöngum í svæði sem ætlað er undir flughlað.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Það eru líka stórar breytingar sem þurfa að eiga sér stað í kringum flugið. Það hefur komið sterk umræða um ástandið í varaflugvallarmálum hér á landi og innanlandsfluginu almennt.

Við eigum líka mjög stóra pakka fyrir framan okkur í hafnarframkvæmdum og sjóvörnum og slíku. Þannig að það er auðvitað hluti af þessari heildarmynd.

Og ef menn stíga einhver skref í þessu þá hefur þetta áhrif á öll púslin í myndinni,“ segir Jón Gunnarsson, starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Heimild: Visir.is