Home Fréttir Í fréttum Iðnaðarmenn kjósa um verkfallsboðun

Iðnaðarmenn kjósa um verkfallsboðun

91
0

 

<>

„Það einfaldlega gengur ekki að gera róttækar breytingar yfir allan vinnumarkaðinn, eins og Samtök atvinnulífsins lögðu til fyrr í vikunni, atvinnugreinarnar eru svo ólíkar og þess vegna þarf allur undirbúningur að vera mjög vandaður og ítarlegur. Við teljum að alltof skammur tími sé til stefnu til að ná vitrænni niðurstöðu varðandi svona róttækar breytingar, þess vegna höfnuðum við tilboði vinnuveitenda. Það gengur heldur ekki að skella fram hugmyndum, sem eiga að ná til allra stétta, það er engu líkara en að vinnuveitendur hafi ætlað sér að bjarga heiminum á tíu mínútum. Margir iðnaðarmenn munu lækka í launum, með sama vinnutíma, verði fallist á útspil Samtaka atvinnulífsins og það er auðvitað óásættanlegt,“ segir Guðmundur Ragnarsson formaður VM. „Það dettur engri fataverslun í hug að flytja eingöngu inn eina stærð af fötum, sem eiga svo að passa á alla viðskiptavinina.“

Leiðrétta þarf dagvinnulaunin

Í bréfi iðnaðarmannafélaganna til Samtaka atvinnulífsins segir að framsetning tilboðsins sé illa unnin og ekki framkvæmanlegt að gera róttækar breytingar yfir allan vinnumarkaðinn án mikillar undirbúningsvinnu hjá ólíkum atvinnugreinum.

„Tíminn sem við höfum til stefnu er of skammur, það þarf að fara gaumgæfilega yfir hverja atvinnugrein fyrir sig til að sjá og metra breytingarnar. Kröfugerð okkar um endurskoðun á launakerfum er skýr, markmiðið er að auka framleiðni, minnka yfirvinnu og leiðrétta laun iðnaðarmanna, sem hafa ekki þróast á sama veg og laun annarra hópa. Þess vegna þarf að hækka dagvinnulaun iðnaðarmanna verulega, þannig að þeir hafi raunverulegt val um að draga úr yfirvinnunni.“

Ekki bara ávinningur vinnuveitenda

„Við höfum verið í fararbroddi í umræðunni um að stokka upp launakerfin, með það að markmiði að stytta vinnutímann. Mér sýnist að tilboð Samtaka atvinnulífsins miðist nánast eingöngu við að vinnuveitendur hagnist, en ekki launþegar. Það getur fjandakornið ekki verið sanngjarnt að ávinningurinn renni einungis beint í vasa vinnuveitenda og launþegar sitji uppi með sárt ennið,“ segir Guðmundur.

Rafrænar kosningar

Iðnaðarmannafélögin sem standa saman að kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins hafa sem kunnugt er boðað við atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun. Kosningin verður rafræn og hefst 24. maí og lýkur 1. júní. Verkföllin munu ná til félagsmanna VM sem falla undir almennan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins.

„ Ég hvet félagsmenn til að taka þátt í kosningunni og sýna þannig samstöðu sem er okkar beittasta vopn. Samninganefndin er algjörlega einhuga, þannig að það skiptir miklu máli að þátttakan verði góð. Á vinnustaðafundum hefur komið berlega í ljós að félagsmenn telja afar brýnt að leiðrétta launin, það er okkar sameiginlega markmið,“ segir Guðmundur Ragnarsson.

Heimild: VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna