Starfsmenn sem hófu sinn virkjanaferil í Sigöldu fyrir rúmlega fjörutíu árum voru í hópi þeirra sem unnu við smíði nýjustu stöðvarinnar á Þjórsársvæði, Búrfellsvirkjunar 2.
Vegna lagsins fræga „Heim í Búðardal“ skipar Sigalda sérstakan sess í hugum margra þegar Engilbert Jensen söng með Ðe lónlí blú bojs: „Þegar vann ég við Sigöldu, meyjarnar mig völdu, til þess að stjórna sínum draumum.“
Lagið samdi Gunnar Þórðarson en textann Þorsteinn Eggertsson. Það má enn sjá draumblik í augum þeirra sem unnu sem ungir menn í Sigöldu þegar sá tími er rifjaður upp.
„Ó, já. Meyjarnar mig völdu, sögðu þeir,“ segir Davíð Jóhannesson. „En það var ekki ég,“ tekur hann fram og hlær. Davíð byrjaði í Sigöldu fyrir 43 árum sem hjólaskóflumaður og hefur síðan komið að öllum stórvirkjunum, síðast Búrfelli 2.
Guðmundur Ingólfsson, vélfræðingur hjá Stálafli Orkuiðnaði, hóf einnig virkjanaferilinn í Sigöldu og hefur sömuleiðis komið að flestum virkjunum síðan.
Guðmundur segir að mjög sérstakt hafi verið að vinna í Sigöldu þegar lagið sló í gegn árið 1975 og þeir Davíð segja að starfsmennirnir hafi mikið sótt á sveitaböll á þeim tíma, meðal annars á Hvol.
„Því nú grætt ég hef meira en mér finnst nóg,“ segir einnig í textanum en sögur fóru af óvenju háum launum við Sigöldu.
„Það er alveg rétt. Þetta var alveg svakalega vel borgað. Menn höfðu aldrei kynnst öðru eins,“ segir Davíð.
Í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 kl. 19.30 í kvöld verður fjallað um Þjórsársvæðið þar sem starfsmenn rifja meðal annars upp Sigöldutímann.
Heimild: Visir.is