Senn sér fyrir endann á endurbótum sem unnið hefur verið að í Kópavogskirkju frá því í sumar. Í vikunni luku starfsmenn þýska fyrirtækisins Oidtmann við að setja upp steinda glugga Gerðar Helgadóttur í kirkjunni eftir viðgerð í Þýskalandi, þar sem þeir voru smíðaðir.
Þá hafa starfsmenn Fagsmíði unnið við viðgerð á ytra byrði glugganna frá júníbyrjun, útilýsing verður öflugri en áður, ný rafmagnstafla er komin í kirkjuna, unnið hefur verið við jarðvegsframkvæmdir og málað, svo fátt eitt sé nefnt. Nú er verið að fjarlægja vinnupalla innan úr kirkjunni.
Sigurður Arnarson, sóknarprestur Kópavogskirkju, segir að þessi verkefni hafi verið kostnaðarsöm og áætlar að kostnaður verði talsvert á fjórða tug milljóna króna. „Við höfum víða fengið vilyrði um stuðning,“ segir Sigurður. Endurbótunum verður sérstaklega fagnað í guðsþjónustu á 56 ára vígsluafmæli kirkjunnar 16. desember klukkan 11.
Heimild: Mbl.is