Home Fréttir Í fréttum Viti við Sæbraut kominn langt fram úr áætlun

Viti við Sæbraut kominn langt fram úr áætlun

230
0
Tölvu­teikn­ing/​Yrki arki­tekt­ar
Framkvæmdir við nýjan innsiglingarvita við Sæbraut hafa farið 50 til 75 milljónir króna fram úr áætlun. Það nemur 50 til 100 prósentum. Reykjavíkurborg segir að vanáætlun skýri þessa framúrkeyrslu að hluta.

Í janúar samþykkti borgarráð að hefja framkvæmdir við að koma fyrir nýjum innsiglingarvita og útsýnispalli við Sæbraut.

<>

Vitinn á að koma í stað núverandi vita á Sjómannaskólanum.

Framkvæmdir hófust skömmu síðar og upphaflega stóð til að ljúka þeim í júní.

Framkvæmdir hafa hins vegar tafist, auk þess sem kostnaður við verkið hefur farið töluvert fram úr áætlun. Áætlaður kostnaður var í upphafi 75 milljónir króna.

Þess utan stóð til að Faxaflóahafnir greiddu 25 milljónir vegna framkvæmda við landfyllingu og grjótvörn undir vitann.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn um málið í borgarráði í október og var henni svarað í vikunni.

Í svari umhverfis- og skipulagssviðs kemur fram að nú sé gert ráð fyrir að heildarkostnaður Reykjavíkurborgar verði 150 milljónir króna.

Áður hafi verið gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði 100 milljónir. Þá kemur fram í svarinu að fyrir mistök hafi upphaflega verið kynnt að kostnaður borgarinnar yrði 75 milljónir króna.

Í svarinu kemur fram að hækkunin sé tilkomin vegna hærra tilboðs en áætlun gerði ráð fyrir, auk vanáætlunar og aukins umfangs við landfyllingu, grjótvarnir, gerð hjáleiða og fleira.

Þá kemur fram að framkvæmdir hafi gengið nokkuð hægar en gert hafi verið ráð fyrir, og að verkefnið verði fullklárað næsta vor.

„Óskiljanleg taugaveiklun“

Vigdís tók málið fyrir á fundi borgarráðs í dag. „En þegar þetta varð ljóst og ég fór að kynna mína bókun greip meirihlutinn til þess ráðs að fresta málinu til næsta fundar og ég er mjög ósatt við það.“

Vigdís segir að þetta sé enn eitt dæmið um framúrkeyrslu í framkvæmdum á vegum borgarinnar.

„Þetta er að fara mjög mikið fram úr áætlun eins og önnur verkefni sem borgin hefur staðið í undanfarin 3, 4, 5 ár.

Ég er farin að líta þetta svo alvarlegum augum að ég held að þetta séu ákveðin taugaveiklunarviðbrögð. Og þegar borgarstjóri og hinn fallni meirihluti sjá þessar staðreyndir, þá er bara komið eitthvert panik-ástand.

Því hvers vegna má þessi bókun ekki liggja inni, vegna þess að svörin eru komin inn á netið? Óskiljanleg taugaveiklun,“ segir Vigdís.

Heimild: Ruv.is