Home Fréttir Í fréttum 23 milljónir í að minnka nýtt hús Alþingis

23 milljónir í að minnka nýtt hús Alþingis

329
0
Mynd: Alþingi
Ákveðið hefur verið að gera breytingar á hönnun og umfangi nýrrar skrifstofubyggingar Alþingis í ljósi þess að áætlað fjármagn dugði ekki til.
Þær breytingar sem gerðar hafa verið hönnun á hússins kostuðu rúmar 23 milljónir. Gert var ráð fyrir að kostnaður undirbúningsvinnu við hina nýju skrifstofubyggingu yrði 311 milljónir en núverandi staða á uppfærðu kostnaðarmati með verðbótum er 345 milljónir.

Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

<>

Þar segir að engri hönnunarvinnu hafi beinlínis verið hafnað heldur hafi verið ákveðið að gera breytingar á hönnun og minnka umfang byggingarinnar í ljósi þess að áætlað fjármagn dygði ekki til.

Samkvæmt upphaflegri áætlun átti skrifstofubyggingin að vera 4.500 fermetrar auk 1.200 fermetra bílakjallara. Í svarinu má sjá að byggingin verður 6.441 fermetri.

Steingrímur segir að það sé eðlilegt að hönnun taki breytingum í hönnunarferli. „Slíkar breytingar hafa yfirleitt verið til góðs enda mun ódýrara að breyta uppdráttum heldur en húsi sem þegar hefur verið reist.

“ Steingrímur segir jafnframt að með tilkomu þessarar byggingar þurfi Alþingi ekki lengur að leigja húsnæði undir hluta starfseminnar sem sé mjög óhagkvæmt vegna hás leiguverðs í Kvosinni.

Skrifstofubyggingin rataði fyrst í fjölmiðla þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, lagði til að við hönnun hennar yrði meðal annars horft til teikninga Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, um uppbyggingu á Alþingisreitnum.

Þau áform voru blásin af og í staðinn haldin hönnunarsamkeppni meðal arkitekta.

Það  voru arkitektar Studio Granda sem hlutu fyrstu verðlaunin í hönnunarsamkeppninni en alls bárust 22 tillögur.  Arkitektarnir sögðu að með hönnun hússins ættu þingmenn að vera sýnilegir vegfarendum utan frá og hver öðrum.

Heimild: Ruv.is