Home Fréttir Í fréttum Óánægja með framkvæmdir við Flensborgarhöfn

Óánægja með framkvæmdir við Flensborgarhöfn

333
0
Mynd: Batteríið - RÚV
Óánægðir Hafnfirðingar telja að bærinn sé að fara bakdyraleið að því að heimila byggingu fimm hæða húss við Flensborgarhöfn. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi byggingaleyfi úr gildi í sumar.

Breyting á deiliskipulagi felld úr gildi

Vorið 2017 veitti bæjarstjórn Hafnarfjarðar lóðarhafa Fornubúðum ehf heimild til að reisa skrifstofu- og þjónustuhús við höfnina- hærra og stærra en til stóð. Þangað á Hafró að flytjast.

<>

Óánægðir íbúar kærðu breytinguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, þeir byggðu meðal annars á því að málið hefði ekki verið nægilega upplýst þegar ákvörðun var tekin og að ekki hefði verið farið að skipulagslögum, byggingin væri tvöfalt hærri en aðrar á svæðinu, í ósamræmi við skipulagslýsingu þar sem gert hafi verið ráð fyrir lágreistum húsum og til þess fallin að ræna þá útsýni.

Í sumar kvað nefndin upp úrskurð sinn, krafðist þess að ákvörðun bæjarstjórnar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar yrði felld úr gildi.

Guðmundur Ingi Markússon, íbúi við Suðurgötu, stendur ásamt hópi óánægðra íbúa að mótmælasíðu á Facebook, yfir 200 hafa látið sér líka við hana.

Guðmundur segir að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar eftir að nefndin felldi leyfið úr gildi. Byrjað sé að vinna í grunninum, þær skýringar hafi fengist frá byggingafulltrúa að verið væri að fylla upp í grunninn til að tryggja öryggi.

Stuttu síðar hafi bærinn samþykkt umsókn um að steypa gámastæði, nákvæmlega þar sem til hafi staðið að byggingin risi.

Hann telur að þarna sé bærinn að fara bakdyraleið að því að leyfa verktakanum að halda framkvæmdum áfram. „Þarna er verið að steypa plötuna í húsið án þess að það sé byggingarleyfi, á fölskum forsendum og bærinn gefur grænt ljós á það.“

Erfitt að fá útlitsmyndir

Þá segir hann að með þessu sé verið að svíkja samráð við íbúa, en í skipulagslýsingu frá 2016 hafi verið kveðið á um lágreistar byggingar. Í lok október hafi bærinn numið skipulagslýsinguna úr gildi. „Þannig að þarna sé verktakalýðræðið að trompa íbúalýðræðið.“

Hann segir að erfitt hafi reynst að fá útlitsmyndir af húsunum sem til stóð að reisa á svæðinu, bærinn hafi sent hópnum þær eftir að hann vísaði í upplýsingalög.

Bærinn virt samráð

Í svari Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn Fréttastofu segir að bærinn hafi í lok október samþykkt umsókn Eignarhaldsfélagsins Fornubúða um að steypa plan til losunar og lestunar gáma.

Bærinn hafi virt samráð við íbúa í samræmi við skipulagslög. Þá séu í gildandi deiliskipulagi heimildir til að reisa hærri byggingar á einstaka lóðum, allt eftir eðli starfseminnar að undangenginni deiliskipulagsbreytingu.

Um hvort þarna sé verið að fara bakdyraleið að því að veita leyfi fyrri framkvæmdum segir bærinn að byggingarfulltrúa berist umsóknir um leyfisskyldar framkvæmdir og byggingarfulltrúa beri að afgreiða umsókn samræmist hún gildandi deiliskipulagi.

Athugasemdafrestur vegna breytts aðalskipulags rennur út í byrjun desember. Guðmundur óttast að í kjölfarið veiti bærinn leyfi fyrir framkvæmdinni á ný.

Heimild: Ruv.is