Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við lagningu Hverahlíðarlagnar

Framkvæmdir við lagningu Hverahlíðarlagnar

123
0
Hverahlíðarlögn

Eftir snjóþyngsli í vetur eru framkvæmdir við lagningu Hverahlíðarlagnar að verða sýnilegri. Þess vegna viljum við upplýsa þig um stöðu mála.

<>

Lögnin er á milli borholanna við Hverahlíð á Hellisheiði og Hellisheiðarvirkjunar. Leið lagnarinnar, sem verður um 5 km. löng, var valin með tilliti til þess að hún yrði sem minnst sýnileg frá þjóðveginum og sem minnst rask yrði. Þá var lagt kapp á að svæðið geti nýst áfram til útivistar með því að hægt verður að fara yfir lögnina á fimm stöðum.

Taka á lögnina í notkun í árslok 2015 og á fullnaðarfrágangi að ljúka á árinu 2016. Framkvæmdirnar eru að nokkru leyti samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar við breikkun Suðurlandsvegar á Hellisheiðinni. Búið er að gera undirgöng undir Suðurlandsveginn fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi og samhliða gerði Vegagerðin steyptan stokk undir veginn fyrir gufulögnina. Sá áfangi er því að baki.

Ljóst er að truflun verður á umgengni um svæðið meðan á framkvæmdum stendur. Vinnuvélar munu þurfa að fara þvert yfir Suðurlandsveginn við Gígahnjúksveg með tilheyrandi truflun og aukinni hættu. Merkingar verða settar upp í samráði við Vegagerðina.

Til að tryggja öryggi allra verður Gígahnúksvegur lokaður tímabundið fyrir almennri umferð sem og vegurinn upp Hellisskarð nú í sumar og fram á haust.

Þér er ef til vill kunnugt um að á netinu má nálgast göngukort af Hengilssvæðinu. Á því er að finna gönguleiðir sem Orkuveita Reykjavíkur hefur átt veg og vanda að því að stika og viðhalda. Á næstunni verður kortið endurútgefið og inn á það bætt gönguleiðum samkvæmt Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss. Jafnframt verða útbúin tölvutæk gögn fyrir GPS-tæki yfir gönguleiðirnar og gufulagnir á svæðinu, sem fólk getur nálgast sér að kostnaðarlausu. Þá verða sett upp upplýsingaskilti með uppdráttum af gönguleiðunum.

Á vefnum má sjá þrívíddarlíkan af legu lagnarinnar og þar er einnig að finna síðu með algengum spurningum um lögnina og svör við þeim.

Heimild: Sveitarfélagið Ölfus