Home Fréttir Í fréttum Unga fólkið er í auknum mæli að komast inn á húsnæðismarkaðinn

Unga fólkið er í auknum mæli að komast inn á húsnæðismarkaðinn

64
0

Töluverð hækkun varð á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnu ári en byggingamarkaður er hægt og sígandi að ná sér á strik aftur og vísbendingar eru um að íbúðamarkaðurinn sé að sigla í ákveðið jafnvægi þar sem íbúðaframboð mun aukast á næstu misserum en engu að síður ríkir töluverð óvissa á markaðnum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem Reykavík Econonmics hefur unnið fyrir Íslandsbanka en helstu niðurstöður hennar verða kynntar á opnum fundi í útibúi bankans á Granda í dag.

<>

257 milljarða velta á síðasta ári
Í skýrslunni kemur fram að þinglýstum kaupsamningum fjölgaði um tæplega 12% frá árinu á undan en samtals voru þeir 8314 á síðasta ári. Heildarvelta á íbúðarmarkaðinum nam 257 milljörðum króna sem er rúmlega 16% hækkun að nafnvirði en árið á undan. Í skýrslu Reykjavík Economics kemur fram að íbúðarverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 8,8% á síðasta ári. Verð á eignum í fjölbýli hækkaði um 9% en eignir í sérbýli hækkuðu um 7,7%.

Mikilvægt að byggja meira
Fram kemur að ekki hefur verið byggt nægilega mikið til að mæta náttúrulegri íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu. Samtals voru 954 íbúðir fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2014 sem er 203 íbúðum meira en árið 2013. Að jafnaði hafa tæplega 1200 íbúðir verið fullgerðar árlega á árabilinu 1983-2014. Um síðustu áramót voru 1813 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu sem eru 364 færri íbúðir en um áramótin 2013. Byrjað var á 570 íbúðum á síðasta ári sem er vel undir langtíma meðaltali.
Bólumyndun takmörkuð á en íbúðarverð miðsvæðis í Reykjavík engu að síður dýrt
Í skýrslu Reykjavik Economics kemur fram að skuldastaða heimila hefur batnað nokkuð með minnkandi atvinnuleysi og auknum kaupmætti. Bólumyndun á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu er takmörkuð en íbúðarhúsnæði er engu að síður orðið dýrt miðsvæðis í Reykjavík.

Fyrstu kaupendur: Unga fólkið er í auknum mæli að komast inn á húsnæðismarkaðinn
Staða fyrstu kaupenda hefur batnað þar sem þeir eru nú orðnir yfir 20% kaupenda á höfuðborgarsvæðinu en voru aðeins 13,6% að meðaltali frá því 2008. Meðalaldur fyrstu kaupenda hefur hækkað og er í dag 29 ár sem er svipað og í Bretlandi. Íslandsbanki hóf á síðasta ári að veita þeim sem kaupa sína fyrstu íbúð sérstakt aukalán til að auðvelda kaupin. Viðtökurnar hafa verið góðar og fer eftirspurn eftir þeim vaxandi.

Heimild: Íslandsbanki