Home Fréttir Í fréttum Hagstæður samningur ríkisins við ÍAV rennur út – Stapafellsnámur í útboð

Hagstæður samningur ríkisins við ÍAV rennur út – Stapafellsnámur í útboð

544
0
Mynd: ÍAV

Ríkiseignir hafa óskað eftir tilboðum í námu- og efnistökuréttindi í landi ríkisins, um er að ræða tvö námusvæði í Stapafelli á Reykjanesi, nefnt Stapafellsnáma.

<>

Stærð landssvæðisins sem boðið er út að þessu sinni talið vera um 110 hektarar samkvæmt útboðsgögnum. Verktakafyrirtækið ÍAV hefur rekið umræddar námur frá árinu 1994, en þá fékk fyrirtækið landssvæðið afhent án útboðs.

Fyrirtækið mun þó samkvæmt útboðsgögnum halda hluta af því svæði sem fyrirtækið hefur haft starfsemi á áfram.

Suðurnes.net hefur fjallað um málefni tengd námurekstrinum í Stapafelli, en samkeppnisaðilar ÍAV á verktakamarkaði telja að leigusamningur ríkisins við fyrirtækið sé afar hagstæður, en um er að ræða einu jarðefnasöluna sem haldið er úti á Suðurnesjasvæðinu, ef frá er talin lítil náma í landi Grindavíkur.

Fyrirtækið greiðir fasta upphæð fyrir efnistökurétt 1.750.000 krónur á ári*. Fyrirtækið greiðir, samkvæmt samningnum, ekkert rúmmetragjald fyrir efnistökuna og hefur það verið gagnrýnt af eina samkeppnisaðila fyrirtækisins í efnissölu, Ístaki.

ÍAV hefur undanfarin ár verið hlutskarpast í fjölmörgum útboðum varðandi framkvæmdir sem þarfnast mikilla jarðefnafyllinga, má þar nefna útboð um stærstu gatnaframkvæmdir í Reykjanesbæ hin síðari ár, við Flugvelli, sem boðin var út á síðasta ári auk milljarða verkefna fyrir stærsta verkkaupann í jarðvinnuframkvæmdum, Isavia.

*Ekki fengust upplýsingar um hvort samningur ÍAV við ríkið taki breytingum skv. byggingavísitölu, en sé svo er leigugjaldið uppreiknað til dagsins í dag rúmar fjórar milljónir króna á ári.

Heimild: Suðurnes.net