Home Fréttir Í fréttum Starfsmannaleigur gætu fengið vottun SA og ASÍ

Starfsmannaleigur gætu fengið vottun SA og ASÍ

205
0
Mynd: RÚV
Starfsmannaleigur sem eru með sitt á hreinu gætu fljótlega fengið vottun hjá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu. Til þess þurfa fyrirtækin að sýna fram á að starfsmenn njóti réttra kjara. Það yrði í verkahring samráðsnefndar samtakanna tveggja, SA og ASÍ, að veita starfsmannaleigunum viðurkenninguna, einhverskonar heilbrigðisvottorð. Til þess þurfa þær að uppfylla ákveðin skilyrði.

Þurfa að skila margskonar gögnum

Starfsmannaleigurnar þurfa að hafa starfað í minnst tólf mánuði og mega ekki hafa brotið lög eða kjarasamninga í þrjú ár. Þá þurfa starfsmannaleigurnar að afhenda afrit af yfirliti yfir fjölda starfsmanna, ráðningarsamninga, vinnutímaskýrslur, launaseðla og annað.

<>

Þetta vottunarkerfi er hluti af samkomulagi sem SA og ASÍ gerðu í vor.

Eftir að starfsmannaleiga hefur fengið viðurkenningu, getur hún þurft að afhenda gögn fjóra mánuði aftur í tímann þegar þess er óskað. Og ef eitthvað stenst ekki, er viðurkenningin tekin til baka.

Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ Mynd: RÚV – Eggert Þór Jónsson

„Markmiðið er að gefa þeim starfsmannaleigum sem telja að þær séu með, eða eru með sína hluti í lagi tækifæri til að sýna fram á það með því að opna sitt launabókhald,“ segir Halldór Grönvold  aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.  „Hins vegar að leiðbeina notendafyrirtækjum sem kunna að þurfa á þjónustu starfsmannaleiga að halda og beina þeim þá til þeirra leiga sem hafa verið tilbúnar til að undirgangast þessar skyldur. “

Nú eru 34 starfsmannaleigur á skrá hjá Vinnumálastofnun. Um miðjan október eru skráðir 1.334 starfsmenn á vegum starfsmannaleiga hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Fimm starfsmannaleigur eru innan vébanda Samtaka atvinnulífsins og Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkassviðis býst við að þær muni sækjast eftir vottun. „Samkomulagið sem við gerðum við Alþýðusambandið byggir meðal annars á ósk þessara starfsmannaleiga sem eiga aðild að SA að við leitum allra leiða til að auka bæði traust notendafyrirtækjanna, launamannanna og almennings og stjórnvalda til þessara starfsemi,“ segir Ragnar.

Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkassviðs Samtaka atvinnulífsins. Mynd: RÚV – Þór Ægisson

Ragnar bendir á að starfsmannaleigur sem ekki hafa starfað í fulla tólf mánuði og gætu því ekki fengið vottun strax gætu sótt um að undirgangast launaeftirlit SA og ASÍ.

„Svo erum við hugsanlega með þriðja hópinn sem er hugsanlega ekki tilbúinn að ganga svona langt. Við myndum þá almennt ekki mæla með því við okkar fyrirtæki að skipta við þær starfsmannaleigur,“ segir Ragnar Árnason hjá Samtökum atvinnulífsins.

Heimild: Ruv.is