Home Fréttir Í fréttum Deila um hundruð milljóna bætur vegna tafa á sjúkra­hóteli

Deila um hundruð milljóna bætur vegna tafa á sjúkra­hóteli

327
0
Mynd: Fréttablaðið/Ernir

Nýr Landspítali vill rukka verktakann sem annast byggingu nýs sjúkrahótels um 900 þúsund krónur á dag vegna tafa á verkinu. Krafan nemur um 300 milljónum króna, að lágmarki.

<>

Verktakinn vill bætur vegna framlengingu verktímans. Málið fer líklega fyrir gerðardóm og þá hugsanlega héraðsdóm.

Stutt er í að nýtt sjúkrahótel Landspítalans verði afhent ríkinu en verkið hefur dregist verulega, miðað við upphaflega áætlun. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýja Landspítalans (NLSH ofh), segir að stjórnin sé nú að bíða eftir verklokadagsetningu.

Ágreiningur er uppi á milli verktakans og Nýs Landspítala um bætur vegna krafna um tafabætur annars vegar og framlengingu verktíma hins vegar.

Sá ágreiningur snýst um fjárhæðir tafabóta og gæti endað fyrir dómstólum. Nýr Landspítali fer fram á að lágmarki 288 milljónir króna vegna tafanna.

„Við vonumst til að fá húsið afhent núna í október. Verktakinn stefnir að því fullum fetum,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir meginskýringu tafanna megi rekja til endurhönnunar á klæðningu hússins. Það hafi haft tafir í för með sér en Nýr Landspítali sé þó á þeirri skoðun að verkið hafi tafist um of.

„Það er ágreiningur á milli okkar og verktakans um það hver ber ábyrgð á lengingu verktímans. Aðalmálið núna er hins vegar að verktakinn ljúki þeim verkum sem hann á að gera.“

Enn eigi meðal annars eftir að ljúka við vinnu við svalir hússin og nokkur atriði á lóð þess.

Bygging sjúkrahótelsins markar upphafið að nýju þjóðarsjúkrahúsi. Verkið hófst haustið 2015 en verklok áttu upphaflega að vera vorið 2017.

Nú, einu og hálfu ári síðar, glittir í verklok, þó dagsetning hafi ekki verið ákveðin.

Gunnar segir að tafirnar sjálfar hafi ekki orðið til þess að auka kostnað ríkisins við verkið.

Hann á ekki von á því að kostnaðurinn fari fram úr því 20 prósenta svigrúmi sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hann segir þó að á meðan aðilar málsins deili um bætur, sé erfitt að spá fyrir um endanlega niðurstöðu.

Kostnaður við framkvæmdina var í upphafi áætlaður ríflega 1,8 milljarðar króna, á verðlagi þess tíma.
Óttar Proppé, þáverandi heilbrigðisráðherra, ákvað að Landspítalinn skyldi bjóða rekstur hótelsins út í samvinnu við Ríkiskaup.

Spítalinn á sjálfur að annast hjúkrunarreksturinn í byggingunni en einkaaðilar munu reka hótelið. Gunnar segir að ekki ætti að þurfa að líða langur tími frá því húsið verður afhent ríkinu þar til rekstur ætti að geta hafist – en áréttar að það sé undir Velferðarráðuneytinu komið.

Aðspurður segir Gunnar að NLSH geri kröfu um 900 þúsund krónur á dag vegna tafanna, sem eru þrískiptar. Stysta krafan sé frá því í desember í fyrra en hinar lengri.

Samkvæmt þeim upplýsingum nema kröfurnar að lágmarki 288 milljónum króna. Gunnar segir að verktakinn hafi einnig gert háar fjárkröfur vegna framlengingar verktímans.

Takist ekki að semja um þessar kröfur fari það sennilega fyrir gerðardóm og þá hugsanlega héraðsdóm, nema samið verði um annað. Báðir aðilar telji sig í sterkri stöðu.

Heimild: Frettabladid.is